Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:45:33 (615)

1999-10-18 15:45:33# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslu ASÍ og BSRB er fjallað mjög ítarlega um ýmsar leiðir til að bæta skattalega stöðu fjölskyldunnar, barnafólks. Þar er m.a. fjallað um hver tilgangurinn á að vera með barnabótum. Þær eru ekki í skýrslunni, hv. þm., kallaðar ómegðarbætur heldur er þvert á móti fjallað um þær af mjög mikilli sanngirni og réttsýni gagnvart barnafólki.

Ég vil minna hv. þm. á að það er ekki langt síðan báðir flokkarnir sem standa að ríkisstjórninni töluðu mikið um heildstæða fjölskyldustefnu. Auðvitað er verið að ræða hluta af fjölskyldustefnunni hérna. En er það mest aðkallandi? Er að mati hv. þm. mest aðkallandi að fara í þessar úrbætur sem eiga að kosta 400 millj. þegar það kostar um 400--500 millj. að framkvæma hluta af stefnu Framsfl. varðandi barnakortin sem flestir hafa mælt með? Það er á vissan hátt mælt með þeirri ráðstöfun í skýrslu frá ASÍ og BSRB, að það sé mun réttlátari aðgerð en ýmislegt annað sem fram hefur komið.

Barnabæturnar hafa verið skertar verulega á undanförnum árum. Í dag hafa í kringum 14.000 fjölskyldur sem nutu barnabóta fyrir ekki löngu síðan tapað þeim. Laun þessa fólks hafa hækkað en hið sama gildir einnig um allt annað á undanförnum mánuðum. Ég efast um að kaupgeta þessa fólks í dag hafi batnað síðan um áramótin vegna þess að verðbólgan hefur sannarlega höggvið í kaupmáttinn. Það gleymdist að taka tillit til þess í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar.