Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:46:19 (640)

1999-10-18 17:46:19# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er þessi spurning um jafnræðisregluna. Af hverju ætti að taka ákveðna tegund af framfærslustyrkjum og undanþiggja þá skattlagningu en ekki aðra tegund? Af hverju ætti að taka þessar bætur út úr skattlagningu á meðan aðrar bætur, frá sveitarfélögunum til að mynda, eru skattskyldar? Ég held að það sé miklu nærtækari samanburður en að miða þetta allt saman endilega við vaxtabæturnar sem eru eins og ég er margbúinn að segja hluti af sjálfu skattkerfinu.

Hv. þm. gerði það að umtalsefni í framsögu sinni að það ætti bara að undanþiggja alla framfærslustyrki eða félagslega aðstoð skatti og talaði um vítahring í því sambandi. Það er reyndar ekkert alltaf svo. Fólk getur lent í þeirri aðstöðu að þurfa að leita sér félagslegrar aðstoðar hjá sínu sveitarfélagi vegna tímabundinna og algjörlega ófyrirséðra erfiðleika án þess að fólk sé varanlega á flæðiskeri statt eða að það geti ekki staðið undir skattgreiðslu af slíkum bótum þegar upp er staðið. Það er allur gangur á því máli. Það er líka varhugavert að gera því sífellt skóna að fólk sem á einhverju skeiði ævinnar þarf á aðstoð að halda, hvort sem það eru húsaleigubætur eða annað, sé þar með varanlega komið í slíka aðstöðu. Vonandi getur fólk sem nýtir sér húsaleigubætur nú notið góðs af vaxtabótakerfinu á morgun. Við búum sem betur fer í samfélagi þar sem fólk skiptir um hlutverk og heldur áfram að þróa sína stöðu og bæta sín kjör. Það er ekki hægt að hugsa um þetta eins og ljósmynd þegar þetta er raunverulega miklu líkara kvikmynd.