Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:55:13 (675)

1999-10-19 15:55:13# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Út af þessum orðum hv. þm. vil ég rifja upp hvað Neytendasamtökin segja um það sem hv. þm. sagði hér síðast. Þau segja orðrétt:

,,Með því að breyta vörugjaldi úr prósentugjaldi í fast gjald í krónum er verið að lögfesta mjög hátt gjald af hverjum bensínlítra.``

Þegar hv. þm. nefnir það að neytendur hafa notið góðs af lækkun á heimsmarkaðsverði, heimsmarkaðsverð á bensíni lækkaði jú verulega fyrri hluta þessa árs, þá sést það ekki á verðinu á bensínlítranum sem hefur á þessu ári hækkað úr rúmum 70 kr. í tæpar 90 kr. Þá a.m.k. sá ríkisstjórnin til þess á miðju þessu ári að taka það aftur, hafi verið einhver tímabundin lækkun, með því að hækka þetta sérstaka bensíngjald um rúma krónu sl. vor eða um mitt sumar. Ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili og síðasta hækkað vörugjaldið um 4 eða 5 kr. eða um 1 kr. á hverju ári.