Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:57:33 (677)

1999-10-19 15:57:33# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að ræða hér í stuttu andsvari stefnu Samfylkingarinnar varðandi umhverfisskatta. Ég gerði það í tiltölulega löngu máli áðan hvaða leið við vildum fara í skattheimtu, varðandi umhverfisskatta og breytingar og endurskilgreiningu á álagningu skatta á bifreiðaeigendur. Ég held að hv. þm. hafi verið hér í þingsalnum og væntanlega hefur hann verið að hlusta á það.

Hv. þm. orðaði það svo að ég vildi teygja velferðarkerfið út í hvert horn, ef ég tók rétt eftir. Með öðrum orðum segir hann að tillögur mínar og allt sem ég hef fram að færa hér teygi út velferðarkerfið. Ég bið hv. þm. áður en hann heldur lengra í svona málflutningi að kynna sér mjög náið útgjöld íslensku þjóðarinnar til velferðarmála, til félagsmála, til húsnæðismála láglaunafólks og til lífeyrisþega og bera það saman við það sem gerist á Norðurlöndum og í Evrópu. Miðað við Norðurlöndin erum við helmingi lægri að því er varðar útgjöld til velferðarmála. Það er því bull og fyrirsláttur þegar talað er um að við göngum of langt í útgjöldum til velferðarmála og við séum að eyða og sóa í það.

Ég bið hv. þm. líka að kynna sér kjör stórs hluta þjóðarinnar sem á ekki fyrir framfærslu sinni út mánuðinn. Ég bið hv. þm. að gera það áður en hann segir okkur ganga of langt í útgjöldum til velferðarmála.