Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:05:01 (681)

1999-10-19 16:05:01# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. síðasti ræðumaður er ekki sammála oddvita sínum að því er varðar hækkun á bifreiðatryggingum sem bifreiðaeigendur hafa þurft að sæta á þessu ári því að sem betur fer hefur hæstv. forsrh. gagnrýnt mjög hækkun á bifreiðatryggingum sem eðlilegt er. Það er alveg ljóst að ekki er hægt að rekja alla þá hækkun, 40% hækkun, til skaðabótalaganna og það er heldur ekki hægt að lesa það út úr niðurstöðu eða áliti Fjármálaeftirlitsins sem skoðaði málið.

Af því að hv. þm. nefndi hagnað olíufélaganna, þá er hann töluvert mikill, hann var fyrstu sex mánuðina 608 millj. Ég býst við að ekki sé mikill hagnaður á þeim heimilum sem hafa þurft að sæta því að fylla bensíntankinn og hefur kostað 700--800 kr. meira á meðaltank á bifreið. Það er ekki mikill hagnaður eða mikið eftir af framfærslueyri á mánuði þegar búið er að borga það sem þar þarf til. Það er gífurlega mikill hagnaður hjá olíufélögunum að skila 608 millj. kr.

Hv. þm. biður mig að rökstyðja það þegar ég segi að bensínverð sé hátt hér og mikið tekið í skatt til ríkisins í samanburði við önnur lönd. Ég er hér með lista yfir 22 lönd að mig minnir og þar trónir Noregur efst, en á eftir kemur Ísland og 20 lönd þar fyrir neðan, Svíþjóð, Danmörk, Ítalía, Holland, Lúxemborg, Bretland og fleiri lönd sem eru með mun lægra bensínverð en við, auk þess sem framfærslukostnaður er þar miklu lægri og launin miklu hærri.