Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:12:38 (708)

1999-10-19 18:12:38# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, fyrir að blanda sér í þessa umræðu. Þegar ég sagðist sakna þingmanna Samfylkingarinnar þá var það að sjálfsögðu vel meint og á því jákvæð formerki. Ég hafði áhuga á að heyra hvaða viðhorf væru þar uppi til aðgerða af því tagi sem hér eru lagðar til.

Tvennt sem hv. þm. nefndi vil ég koma inn á. Það fyrra er að hann nefndi réttilega að upphæðir sem þarna eru settar fram geta aldrei orðið nákvæmnisútreikningar og eru ekkert hugsaðar þannig af okkar hálfu. Við erum ekki að reyna að segja að vísindaleg eða nákvæmnisrök liggi á bak við að verja frekar 150 milljónum en 200 eða 800 frekar en 1.000. Við tökum þarna fyrst og fremst ákveðið mið af umfangi viðkomandi málaflokka, umfangi vegaframkvæmda, sem eru jú upp á nokkra milljarða kr. eins og menn þekkja --- heildarfjárveiting til vegagerðar er kannski upp á eina 8 milljarða. Í öðrum tilvikum tökum við mið af útgjöldum á einstökum sviðum, t.d. til skólamála eða framlag sem verið hefur undanfarin fjárlög, og nú á því miður að skerða, til að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum, svo ég upplýsi hv. þm. um hvernig við reyndum að nálgast ákveðnar leiðbeinandi upphæðir í þessum efnum.

Að sjálfsögðu væri æskilegt að þingnefnd færi yfir þetta. Að lokum verða aldrei nákvæmnisútreikningar lagðir til grundvallar í slíku heldur pólitískar ákvarðanir sem fara eftir vilja manna til þess að gera hlutina.

Varðandi aðferðina að koma fjárhagslega veikburða sveitarfélögum með erfið svæði til aðstoðar við að sinna félagslegri þjónustu, með fjárstuðningi frá ríkinu eða með því að auðvelda þeim að sameinast, þá verður eftir sem áður alltaf staðreynd að aðstæður sveitarfélaga, hvort sem þau eru lítil eða stór, til að sinna sinni félagslegu þjónsutu eru mismunandi. (Forseti hringir.) Þó við stækkum og leggjum saman strjálbýlissveitarfélög þá verða aðstæður þeirra alltaf erfiðari. Þetta er hugsað sem sérstakur (Forseti hringir.) stuðningur ríkisvaldsins í slíkum tilvikum.