Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:24:46 (711)

1999-10-19 18:24:46# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að hv. þm. Jón Kristjánsson veit að afstaða okkar til erlendrar stóriðju, og þó sérstaklega þess tiltekna virkjunarkosts sem nú er uppi varðandi Jökulsá í Fljótsdal, þ.e. með uppistöðulóni á Eyjabökkum, er reist á öðrum og málefnalegum forsendum, öðrum en þeim að við höfum ekki samúð með Austfirðingum í varnarbaráttu þeirra í byggðamálum. Ég held að það sé ekki neinum til góðs að reyna að blanda þessu svona saman og ég get alveg eins sagt á móti að mér finnst það mótsagnakennt að sú ríkisstjórn sem hefur óskaplega lítið aðhafst í byggðamálum, hefur horft á ástandið versna ár frá ári í samfellt sex ár, komi svo og vakni allt í einu núna til lífsins og muni eftir byggðavandanum þegar þarf að fara að réttlæta þau náttúruspjöll og þá framkvæmd sem þarna er í bígerð.

Hitt er líka alveg ljóst, sem kom reyndar upp í orðaskiptum okkar hæstv. forsrh. áðan, og það sér hvert mannsbarn, að álver, risaframkvæmdir af því tagi verða auðvitað aldrei innilegg í hinn almenna atvinnu- og byggðavanda um allt land. Að vísu gjammaði einn hv. þm. hér fram í að svo gæti komið álver í Eyjafjörð, en það er ekki þannig að við förum í hvert það byggðarlag og hvern þann stað þar sem eitthvað bjátar á í byggðamálum og lausnin felist í einu stykki álveri. Það er bara ekki þannig. Það er alveg augljóst mál að um slíkt verður ekki að ræða. Það geta aldrei orðið nema þá mjög fáar og afmarkaðar og staðbundnar framkvæmdir og áhrifin samkvæmt því.

Það sem ég óttast sérstaklega þegar menn draga slíka álvers- og stóriðjuumræðu inn í byggðamálin sem ég tel að ætti að halda algjörlega aðskilinni, er að þetta verði mönnum eitthvert yfirklór, að menn telji sig hafa gert vel, a.m.k. á Austurlandi ef þeir koma þarna með eitt stykki álver. En ef ekkert breytist að öðru leyti þá mun það reynast minna bjargræði en margir trúa.