Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:51:51 (721)

1999-10-19 18:51:51# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:51]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson saknar atvinnuþáttarins. Hann er alls ekkert óljós. Það er talað um að setja fjármuni til atvinnusköpunar. Munurinn á okkur og ríkisstjórnarflokkunum er kannski sá að við höfum tröllatrú á því að fólkið og félagasamtök sé tilbúið til atvinnuuppbyggingar ef það fái til þess umgjörð og möguleika. Þegar talað er um að setja milljarð í atvinnuuppbyggingu, þá færi það auðvitað í gegnum ýmsar stofnanir, eins og atvinnuþróunarfélag o.s.frv.

Við erum með grunnatriði í atvinnuuppbyggingu sem eru stórmál, eins og t.d. þriggja fasa rafmagn. Gera menn sér grein fyrir því að fyrir þá sem búa við eins fasa rafmagn í ferðaþjónustu úti á landi, hvort sem um hótel eða sjoppur og þess háttar er að ræða, er kannski tvöfalt dýrara að endurnýja tæki? Og það er helmingi verri nýting á orkunni, gríðarlegur kostnaður. Þetta eru allt grundvallaratriði sem þarf að laga.

Hver er afleiðing af stóriðjustefnunni núna úr því að mönnum er svona tíðrætt um hana og setja hana í samhengi? Er það góð pólitík í orkustefnu landsins, eins og ég lýsti hér um daginn þegar við vorum að ræða um sjálfbæra orkustefnu, að taka rafmagnið af fyrirtækjum okkar? Ég nefndi mýmörg dæmi bara í mínu næsta nágrenni, tvöföldun á kostnaði hjá veitingahúsum t.d. norður í Eyjafirði og stór fyrirtæki eru að fara að nota svartolíu.

Hvers konar hugsun er á bak við þetta allt sama? Ég held að menn viti ekkert hvert þeir eru að stefna og setji ekkert í samhengi. Og þetta leiðir til þess að étið er utan af allri blómlegri starfsemi. Þetta er ósköp einfalt.