Útsendingar sjónvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:25:18 (760)

1999-10-20 14:25:18# 125. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A útsendingar sjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær þakkir sem hér hafa verið látnar í ljósi varðandi þessa fyrirspurn. Það má sjá á henni og svörum við henni að á tímum tækniframfara, sem í dag eru hraðari en um getur í annan tíma, að virkileg þörf er á því að spyrja slíkra spurninga. Og svörin sem við fyrirspurninni koma sýna okkur svo ekki verður um villst að þetta er ein af ástæðum þess að við eigum að halda það markmið að efla Ríkisútvarpið sem ríkisútvarp og efla það af myndarskap og sjá til þess að menningarleg dagskrá þess komist til allra heimila á landinu, ekki bara sumra. Og mér þætti, virðulegi forseti, vænt um að sjá framan í það einkafyrirtæki sem sæi einhvern metnað í því að koma sómasamlegum sjónvarps- og útvarpssendingum til þeirra 250 einstaklinga sem gera má ráð fyrir að búi á þessum 78 bæjum, mér þætti vænt um að sjá það einkafyrirtæki sem sæi sér einhvern hag í því að gera þessi skilyrði góð.