Starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:42:06 (766)

1999-10-20 14:42:06# 125. lþ. 13.6 fundur 39. mál: #A starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir greinargóð og yfirgripsmikil svör. Ég gengst við því að spurningin hafi kannski verið full margliðuð fyrir þann stutta tíma sem henni var ætlaður til að svara.

Í lokin vil ég einungis ítreka þau orð mín að hér þurfi að standa vaktina sem aldrei fyrr. Það er alveg ljóst að þó að þessi efni berist hægt virðist magn þeirra margfaldast á skömmum tíma eins og rannsóknir í nágrannalöndum okkar hafa sýnt.

Ég fagna því að sjálfsögðu að hér skuli Geislavarnir ríkisins og Hollustuvernd vera að vinna að málum og ég hef verið að kynna mér skýrsluna sem lögð var fram fyrr í ár varðandi mengun hafsins. Það eru bæði jákvæðar niðurstöður og skelfilegar en mergurinn málsins er að hér verði staðin vakt öllum stundum og þeim úrbótum hraðað sem mögulegar eru. Þrýstingur okkar á stjórnvöld í Bretlandi þarf að vera nánast daglegur til þess að öryggi okkar og fiskstofna við landið sé tryggt.