Starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:43:40 (767)

1999-10-20 14:43:40# 125. lþ. 13.6 fundur 39. mál: #A starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að þetta er afar mikið hagsmunamál. Hér hefur einn hv. þm. komið upp sérstaklega til að brýna mig í málinu. Ég held að það þurfi ekki að brýna mig sérstaklega. Ég hef tekið þetta mál eins föstum tökum og mér hefur verið unnt. Ég hef tekið það upp á þeim vettvangi sem við hefur átt, sérstaklega gagnvart þeim aðilum sem geta haft áhrif á gang mála erlendis.

Þetta er afar mikið hagsmunamál. Við vitum hvað sjávarútvegur okkar er mikilvægur og hve neytendur eru viðkvæmir. Við verðum því að geta sannað og sýnt fram á það til framtíðar að við bjóðum upp á hreinustu sjávarafurðirnar í heiminum.

Ég vil ítreka að við erum með mjög hreint haf í kringum landið. Að sjálfsögðu viljum við halda því þannig. Það er rétt að það berst geislamengun frá Sellafield og hana viljum við stöðva sem fyrst. En það eru fleiri svæði sem eru varasöm. Ég vil nefna sérstaklega Kólaskagann. Þar eru 300 kjarnaofnar í slæmu ástandi og afar mikilvægt að við þrýstum líka á um aðgerðir þar. Ég vona svo sannarlega að Evrópusambandið muni beina augum sínum meira í átt til norðurs. Þeir hafa ekki gert það eins mikið og við höfum gjarnan viljað. En núna hafa Finnar sett sérstaka áherslu á umhverfismál í Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi og þar er að sjálfsögðu Kólaskagi efstur á blaði.

Það eru fleiri atriði sem hafa þarf áhyggjur af. Ég nefni hér þrávirk lífræn efni sem eru líka mjög ógnvekjandi og valda því t.d. að nú sjá menn tvíkynja ísbirni á Svalbarða. Þetta hefur umfangsmikil áhrif á lífríkið í norðri. Við Íslendingar þurfum áfram að vinna að þessum málum eins og við höfum gert. Það er umtalað úti í hinum stóra heimi að Íslendingar hafi verið í fararbroddi þeirra sem hafa þrýst á um að hafið verði áfram eins hreint og hægt er í kringum Ísland. Því er ágætt að heyra þingmenn taka svona vel undir það hér.