Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:15:40 (779)

1999-10-20 15:15:40# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur alltaf verið vilji íslenskra stjórnvalda að hér væru ekki staðsett kjarnorkuvopn. Sá vilji hefur verið afdráttarlaus og skýr. Það vita allir og þeir eru ánægðir með það. En þegar upplýsingar berast frá virtum fjölmiðum og fréttastofum þá kemur forsrh. og kallar það að nota sér fréttir til að vera með upphlaup. Ég er aldeilis gáttuð á þessum viðbrögðum þegar ég taldi að við mundum ræða hér opinskátt og einlæglega saman um viðbrögð Íslendinga við slíkri frétt.

Það er líka sagt að verið sé að gera því skóna að vopn hafi verið geymd hér í vinstri stjórn. Það er alveg rétt að ríkisstjórn Ólafs Thors lauk störfum 25. júlí 1956 og þá tók við vinstri stjórn en ef hér hefði verið komið fyrir kjarnorkuvopnum árið 1959 án vitundar ríkisstjórnar Íslands skiptir það mig engu hvort ríkisstjórn sú var leidd af Ólafi heitnum Thors eða Hermanni heitnum Jónassyni. Við erum ekki að ræða um það.

Það er líka sagt að það sé óvísindalegt að einhver lönd hafi verið strikuð út af lista og við hljótum að spyrja, virðulegi forseti: Af hverju er listinn yfirstrikaður?

Ég er ekki í minnsta vafa um nauðsyn þess að Alþingi bregðist við svona alvarlegum fréttaflutningi. En það er fráleitt af okkur ef við hefðum ætlað að ganga til fyrirspurnatíma á Alþingi og hverfa síðan héðan af fundi og láta fjölmiðlana eina um að kryfja alvarlega umræðu um utanríkismál íslensku þjóðarinnar. Flokkarnir allir eiga að standa saman um að krefjast fullnægjandi skýringa þegar slíkar staðhæfingar eru settar fram, herra forseti. Um það snýst þessi umræða ólíkt öðrum utandagskrárumræðum en það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem getur gengið erinda okkar við bandarísk stjórnvöld til að upplýsa megi þessi mál.