Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:18:36 (818)

1999-10-21 11:18:36# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er ekki slæmt að hefja umræðu um siðferði eftir þessa umræðu sem átt hefur sér stað í morgun. Við erum að ræða till. til þál. um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði. Það er mikilvægt mál og mjög þörf umræða sem þarf að eiga sér stað í morgun.

Undanfarin ár og áratugi hefur átt sér stað ákveðin þróun erlendis sem hefur teygt anga sína hingað til lands. Hún felst í að líta á siðferði fyrirtækja. Menn hafa verið að átta sig á því undanfarin ár að fyrirtæki hafa ákveðna mannlega eiginleika sem felast í viðbrögðum starfsmanna þeirra. Fyrirtækin fá þau einkenni að vera dugleg, sanngjörn, metnaðarfull, heiðarleg, frek eða umhverfissinnuð. Þetta þekkjum við sjálf. Við höfum sjálf átt viðskipti við fyrirtæki sem eru afskaplega sanngjörn. Við höfum átt viðskipti við fyrirtæki sem eru frek. Þá helgast það af viðbrögðum þeirra starfsmanna sem við eigum samskipti við. Angi af þessu er það að fyrirtæki eru farin að planta trjám, þau eru farin að styrkja prófessorsstöður í Háskóla Íslands og stunda þróunarhjálp.

Við umræður í gær kom einmitt fram að menn óttuðust þessa styrki við prófessorsstöður við Háskóla Íslands, að þar mundu menn eingöngu leita til raunvísindadeildar eða raunvísindamanna. Menn óttuðust um að hugvísindi, heimspekideild og slíkir fengju ekki styrk. Ég er ekki sammála því. Ég hygg að fyrirtæki í framtíðinni muni ekki síður styrkja heimspekirannsóknir og siðfræðirannsóknir, sem er einmitt angi af því sem við erum að tala um.

Það sem við erum að tala um er ímynd fyrirtækja. Við þekkjum öll góð og slæm fyrirtæki. Fyrirtæki eru í auknum mæli að byggja ímynd sína með mjög dýrum auglýsingaherferðum. Við höfum séð auglýsingar frá FBA undanfarið þar sem þeir eru að búa sér til ákveðna ímynd. Þessi þróun er að eiga sér stað. Fyrirtæki eru í auknum mæli farin að setja sér siðferðileg markmið, ekki bara fjármálaleg heldur einnig siðferðileg markmið til þess að starfsmennirnir viti hvernig þeir eiga að koma fram.

Herra forseti. Við sem einstaklingar rekumst á vafasamt fólk í lífi okkar. Við rekumst á traustvekjandi fólk, fólk sem við treystum af einhverjum ástæðum. Traustið er eitthvað sem menn byggja upp hægt og rólega, mjög hægt og mjög rólega, og eitt lítið atvik, ein lítil sviksemi getur rústað góðu trausti sem við berum til einstaklings. Ef maður sem við höfum treyst fullkomlega svíkur okkur í litlu atriði, lýgur að okkur eða svíkur okkur á annan máta, þá er traustið farið. Ég hef stundum sagt að það þurfi tíu góð atvik til að upphefja eitt atvik af slæmum toga. Þannig er eðli traustsins sem við berum.

Spurningin er hvort maður sem hefur aflað sér trausts eigi ekki ákveðin verðmæti. Ég hef stundum talað um verðmæti heiðarleikans. Hvers virði er heiðarleikinn fyrir þann sem hefur ástundað. Hann er kannski mesta eignin hans þegar upp er staðið?

Það kemur líka fram í fornum íslenskum ritum að það eina sem situr eftir af starfi mannsins sé í raun orðstírinn, heiðarleikinn eða traustið sem hann hefur áunnið sér. Allt annað er hjóm. Stjórnendur og eigendur fyrirtækja hafa hægt og rólega áttað sig á því að þetta á ekki bara við einstaklinga heldur líka fyrirtæki, þ.e. að afla sér trausts, virðingar og góðrar ímyndar. Ímynd fyrirtækis er ekki síðri eign en vörubílar og tölvur og kannski er hún miklu meira virði en að eiga góðar tölvur og góða vörubíla.

Í þessu skyni hafa fyrirtæki snúið sér að neytendavernd, að starfsmannastefnu og hluti af því er jafnrétti. Það merki sem fyrirtækið gefur stafsmönnum sínum með því að ganga fram hjá jafnrétti t.d. --- og þá er ég að tala um jafnrétti fólks og vil ekki einskorða umræðuna bara við jafnrétti kynjanna --- er: Svona hegða ég mér. Jafnréttisumræðan er því mjög mikilvæg bara upp á að fá gott starfsfólk, að fólkið treysti fyrirtækinu og séu trúir starfsmenn. Fólk vinnur frekar hjá ,,góðu fyrirtæki`` en hjá siðlausu fyrirtæki. Kannski er þetta aðaleign fyrirtækjanna og ætti að færast í bókum þeirra. Í bækurnar færðust ekki bara fasteignir og hlutabréf og annað slíkt heldur einnig ímynd fyrirtækisins til eignar.

Herra forseti. Þessi þróun hefur náð hingað til lands eins og annað. Mörg fyrirtæki, sérstaklega á fjármálamarkaðinum, hafa tekið upp siðareglur. Það gengur reyndar afskaplega hægt vegna þess að það vantar rannsóknir á því sviði. Hvað eru góðir siðir? Þar þyrfti kannski eitthvert fyrirtæki að styrkja góða prófessorsstöðu við háskólann til að finna út úr því hvernig siðareglur og siðamarkmið fyrirtækja eiga að líta út.

Af hverju nefni ég fjármálamarkaðinn sérstaklega? Það er vegna þess að engin grein í atvinnulífinu byggir eins mikið á trausti. Þegar ég legg pening inn í banka sem innstæðu, sparifé, þá treysti ég því að ég fái þetta fé aftur. Ég legg inn peninga, sem ég geti keypt mér eitthvað fyrir og treysti því að ég fái peninga til baka aftur og ég gæti keypt það sama fyrir.

Verðbólguáratugirnir voru mjög til þess fallnir að brjóta niður traust fólks á því að leggja inn peninga, t.d. andvirði skíða. Það gat svo fengið peninga til baka sem voru andvirði skíðahanska. Þetta er sem betur fer liðin tíð. Verðtryggingin átti þátt í að vinna á móti þessu siðleysi. Hún hefur átt þátt í að verðbólgan er horfin. Þannig hafa menn stundað hérna siðleysi í stórum stíl. En það er að breytast.

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er að mínu mati forræðishyggja. Hér erum við að tala um opinbert siðferði. Það á að þvinga menn til góðs siðferðis. Við segjum börnunum okkar: Ekki stela, segðu nú satt. Það er ágætt að gera það við lítil börn. En við fullorðið fólk á maður að nota aðrar aðferðir. Þar á að vera ákveðin þróun. Menn eiga að segja satt af því að það er hagur í að segja satt. Ég held að það sé betra að láta þessa þróun koma neðan frá heldur en að þvinga hana ofan frá eins og hér er lagt til. Þess vegna er ég á móti tillögunni. Henni er þvingað ofan frá þó að innihaldið sé mjög gott.