Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:53:59 (833)

1999-10-21 11:53:59# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:53]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er allt býsna fróðlegt og sumpart er skemmtilegt að velta fyrir sér mannlegum eiginleikum í sambandi við það hver ljúgi hvenær og hvernig og undir hvaða kringumstæðum. Ég held að okkur miði samt ekki mjög langt í því sambandi. Ég held hins vegar að okkur sé nauðsynlegt að átta okkur á því undir hvaða formerkjum þessi tillaga er og hvað hún segir.

Í henni er hvergi að finna að hæstv. ráðherra eigi að skrifa þessar siðareglur fyrir fyrirtækin í landinu og ota þeim með góðu eða illu í andlit þeirra. Það er ekkert um það að ræða. Hann á einfaldlega að sjá um það og fylgast með því og skapa þann hvata fyrir fyrirtækin sjálf að þau sjái sér hag í að setja þær, og fylgjast með því að einhver glóra sé í þeim. (PHB: Ef það stæði ...) Það er það sem stendur hér og hv. þm. sér ef hann er læs.

Ég ætla svo sem ekkert að elta ólar við eða deila við hann um einkunnagjöf eða hvað það var sem réð því að hann óð með látum inn í stjórn Íslandsbanka eitt stutt ár. Það er eins og mig minni samt sem áður að það hafi verið undir þeim formerkjum að hreinsa þyrfti til í þeirri stofnun og vafalaust þá til þess að auka gróðann. Það er nú alltaf undirliggjandi. En kannski hefur þurft að hreinsa til meira í leiðinni til þess einmitt að skapa bankanum aukið traust á þeim tíma. Ég skal ekkert um það segja, enda er það ekki mitt mál.

Kjarni málsins er þessi: Það er engin önnur heimspeki gildandi í okkar viðskiptalífi en gerist og gengur í þróaðri ríkjum á þessum vettvangi, þróaðri en Ísland nú raunar er. Ég vitnaði til Bandaríkjanna annars vegar og hins vegar til Evrópu. Og ég kalla eftir því hvort hv. þm. telji að þar séu menn á röngu róli, að þar sé þetta tóm vitleysa og forræðishyggja. Hann vitnaði til Sovétríkjanna. Komi hann aðeins nær til byggða og skoði Evrópu og Bandaríkin í þessu samhengi. Ég spyr: Er þá verið ota þessum reglum að viðskiptamönnum og stórfyrirtækjum þar á bæ? Auðvitað ekki.