Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:58:37 (835)

1999-10-21 11:58:37# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:58]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar og lýsi yfir ánægju minni með að hv. þm. er í öllum meginatriðum sammála því að það beri að setja siðareglur enda gat það ekki öðruvísi verið þar sem hún kemur úr þessum geira atvinnulífsins, þ.e. úr heilbrigðiskerfinu þar sem siðareglur eru nánast alfa og omega þeirra hluta sem gera skal.

Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að hafa áhyggjur af þessari forræðishyggju. Hún hefur sennilega villst örlítið af leið vegna undarlegrar innkomu hv. þm. Péturs Blöndals í þeim efnum. Í texta tillögunnar segir að það eina sem viðskrh. eigi að gera sé að sjá um að stofnanirnar og fyrirtækin setji sér sérstakar siðareglur. Með öðrum orðum þá á þetta að koma neðan frá. Eftirlitsskyldan er í fyrsta lagi fólgin í því að ráðherrann hvetji til þess og ýti á að þær séu settar og í öðru lagi er ekki óeðlilegt að hann staðfesti þær til þess einfaldlega að fyrirbyggja að þær gangi ekki mót gildandi lögum og reglum, að þær séu ekki alveg úr fasa, af því að hv. þm. nefndi dæmi um misrétti kynjanna eða um öfgakenndar skoðanir gagnvart lituðu fólki. Slíkar siðareglur gætu auðvitað aldrei gengið upp því að þær ganga gegn gildandi lögum. Það væri þá ráð í þeim tilfellum að koma viðkomandi fyrirtæki á rétt ról. Þar var því ágætt að hún kom einmitt með þetta dæmi. Ráðherrann hefur annars vegar hvatninguna í hendi sér og hins vegar eftirlit með því að þetta sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Forræðishyggjan er því hvergi. Þetta á að koma neðan frá einmitt eins og hv. þm. nefndi sjálf.