Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:37:21 (860)

1999-10-21 14:37:21# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Enn og aftur vekur athygli á þessum herrans degi hin virka þátttaka flokks frelsisins í íslenskum stjórnmálum, Sjálfstæðisflokksins, í þessari umræðu um markaðinn, heilbrigða viðskiptahætti og virka samkeppni. Þeir eru hér, með fáeinum undantekningum þó frá því fyrr í morgun, algerlega stikkfrí. Enda er í fullu samræmi við framgangsmáta þeirra þegar í harðbakkann slær. Þegar til kastanna kemur er sá flokkur auðvitað í raun og sanni vinur og verndari, skjól hins stóra og öfluga, en ekki þess að samkeppnin fái að njóta sín til fulls með það að markmiði að lækka vöruverð eða bæta þjónustu til handa viðskiptavinum.

Það hentar bara stundum fyrir þann flokk, Sjálfstæðisflokkinn, að kalla sig flokk frelsis, unnanda frelsisins, frelsi einstaklingsins, frelsi markaðarins. Það er bara stundum til hátíðabrigða sem það á sérstaklega við. Oftar en ekki skjóta þeir skjólshúsi yfir þann stóra sem á fjármagnið og vill ávaxta það. Þeir láta sig minna varða hvernig þessi kaup gerast, hvernig samkeppnin um kúnnann, um lækkað vöruverð og betri þjónustu gengur fram.

Þetta er veruleiki ... (Gripið fram í: Er þetta 1. maí ræða?) Nei, þetta er sko ekki 1. maí ræða. Ef hún væri það þá væri hún undir öðrum formerkjum. Ég minni hins vegar á að ræður sjálfstæðismanna eru yfirleitt fullar af innihaldslausum frösum. Það kemur auðvitað í ljós þegar taka þarf á hlutunum og ræða málin á efnislegum grunvelli að þá eru sjálfstæðismennirnir meira eða minna stikkfrí.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti, því að þetta er veruleikinn sem við okkur blasir hér á þessum fimmtudegi í umræðu um viðskiptasiðferði, í umræðu um Samkeppnisstofnun. Ég staldra einkum við þessi atriði, herra forseti, því hér féllu orð hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, 1. flm. þessa frv. um breytingar á samkeppnislögum, sem voru auðvitað dagsönn. Ræða hans fjallaði um að Sjálfstæðisflokkurinn, hann af öllum flokkum, hafi gengið harðast fram, með formann sinn í broddi fylkingar, til að berja á stofnun sem lögum samkvæmt á að fylgjast með því að markaðurinn gangi greiðlega fyrir sig og þar ríki samkeppni í reynd. Nei, þessi ,,flokkur frelsisins`` hefur yfirleitt viljað hengja boðbera tíðindanna og sagt stofnunina á rangri leið. Þetta er dálítið kúnstug pólitík, herra forseti, og ekki undarlegt að menn staldri nú við þennan veruleika hlutanna. Svona er hann nú samt og má sjá af umræðum í fjölmiðlum á liðnu sumri, síðsumars, þar sem forsrh. fór --- ekki einu sinni heldur mörgum sinnum --- mikinn vegna þess að hann og trúnaðarmenn hans gátu ekki handvalið og handraðað á jötuna. Sú umræða bar þess gleggstan vott hvorum megin og hverjum hjartað slær í Sjálfstæðisflokknum þegar að til á að taka.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hældi hæstv. viðskrh. sérstaklega fyrir skilning hans og hvernig hann hefði tekið á úrskurðum Samkeppnisstofnunar, ráðum hennar og úrræðum. Vissulega má taka undir það að viðskrh. hæstv. hefur ekki verið í líkingu við forsrh. hæstv. eða aðra sjálfstæðismenn þegar að þeirri stofnun kemur. Enda skyldi engan undra þar sem hæstv. viðskrh. er höfuð þessarar stofnunar. Stofnunin, sem auðvitað starfar lögum samkvæmt, heyrir undir hans ráðuneyti. Ég hef þó stundum saknað þess dálítið að hæstv. viðskrh. hafi ekki gripið fastar og öruggar til varnar fyrir Samkeppnisstofnun þegar sjálfstæðismenn, samstarfsmenn hans í ríkisstjórninni, hafa djöflast á henni --- fyrirgefðu orðbragðið, herra forseti --- fram og til baka, upp úr og niður úr. Mér hefur þá fundist vanta dálítið upp á að ágætur hæstv. viðskrh. kæmi til varnar þessari stofnun. Það hefur hann því miður ekki gert.

Er það svo, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra sé þarna í hliðarsal? Annars mundi ég bíða þess að hann komi aftur til að beina nokkrum orðum að honum beinlínis.

(Forseti (HBl): Forseti efast um að hann hafi betri yfirsýn yfir hliðarsalinn en ræðumaður.)

Það er rétt. Ég vík þá að öðrum þáttum sem ekki er sérstaklega beint að hæstv. ráðherra. Ég vík að nokkrum efnisatriðum þessa frv. sem hér er á borðum hins háa Alþingis án þess að endurtaka það sem 1. flm. hefur farið mjög vel yfir.

Það sem auðvitað er áberandi í íslensku atvinnulífi á seinni tímum er að markaðsvæðingin hefur haldið innreið sína og hinn svokallaði hlutabréfamarkaður hefur þroskast og þróast mjög hratt, kannski of hratt að sumra áliti. Þá vekur athygli að aðilar í atvinnulífi og stjórnmálamenn einnig skuli ekki hafa áttað sig á því að með markaðsvæðingu atvinnulífsins eykst hlutverk og mikilvægi samkeppnislaga og Samkeppnisstofnunar. Í þessu frv. er m.a. tekið á einu atriði sem er feiknamikilvægt fyrir samsetningu markaðarins eins og hann hefur raunar verið að þróast á síðustu missirum. Þá er ég að vísa til þess að samkvæmt túlkun Hæstaréttar á 18. gr. samkeppnislaganna er það ekki talið ganga gegn anda laganna ef fyrirtæki sem einu sinni hefur náð markaðsráðandi stöðu styrkir enn frekar stöðu sína.

[14:45]

Hér er vísað til hins svokallaða Flugleiðamáls sem gerð er ítarleg grein fyrir á bls. 4 í grg. Þetta er hægt að yfirfæra á fleiri þætti atvinnulífsins og gerir það að verkum að við komumst eiginlega ákaflega lítið áfram því að það er ekki eingöngu í fluginu sem þetta ástand blasir við og á þessu vandamáli er vert að taka. Þetta er líka í flutningum á sjó. Þetta er líka í vaxandi mæli, því er nú verr og miður, í flutningum á landi, með öðrum orðum í samgöngugreinunum og ekki síst er það í fjarskiptunum. Það mætti halda um það langa sjálfstæða ræðu, herra forseti, alveg sérstaklega mætti ræða þau mál í þaula.

Að minni hyggju hefur mörgum hlutum verið snúið þar svoleiðis gjörsamlega á hvolf að engu tali tekur. Þegar Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hafa lögum samkvæmt reynt að tryggja þó ekki nema samkeppni á þeim örfáu sviðum sem það er unnt á fjarskiptamarkaði þá hafa einkum fulltrúar Sjálfstfl. brugðist ókvæða við og talið afskipti Samkeppnisstofnunar fráleit og í engu samræmi við þau markmið sem flokkurinn hefur væntanlega í þessum efnum.

Stundum er það þannig, herra forseti, að hægt er að snúa hlutum á hvolf og gera þá þannig úr garði að fólk hættir að skilja. Vissulega er það þannig í fjölmiðlamyndinni sem birt er með köflum af hálfu fjölmiðla og stjórnmálamanna úr Sjálfstfl. að ætla mætti að Samkeppnisstofnun væri að vinna gegn neytendunum þegar kemur að því að tryggja virka samkeppni í einstökum greinum fjarskipta. Um daginn tók ég til að mynda eftir því vegna úrskurðar Samkeppnisstofnunar um flug út á land á tiltekinn stað að fréttamaður virtist ekki skilja tilganginn sem lá að baki. Kjarni málsins og afskipti Samkeppnisstofnunar, hinn rauði þráður, er auðvitað sá að til lengri tíma litið er reynt að bregðast við því ef eitt fyrirtæki á tilteknu sviði verður of markaðsráðandi því að það mun til skemmri og lengri tíma litið verða til þess að það fyrirtæki hefur tök á að lækka verðið, fara í tímabundnar verðlækkanir, drepa samkeppnisaðila. Það þekkjum allt of vel í flutningum á sjó og raunar í lofti líka hvað gerst hefur hér á landi á þessum áratugum. Það leiðir auðvitað til stórhækkaðs verðs á viðkomandi þjónustu og yfirleitt versnandi þjónustu þegar allt kemur til alls.

Þessu stóra samhengi hlutanna þurfum við að halda mjög ákveðið til haga. Við ræddum í morgun í tengslum við annað skylt mál, viðskiptasiðferðið, að við erum eyland. En við erum ekkert eyland þegar kemur að hinu alþjóðlega viðskiptasamfélagi. Við jafnaðarmenn og samfylkingarmenn höfum velt því upp hvers vegna lögmál markaðarins þar sem menn vilja og hvetja til þess að eftirlitsstofnanir hins opinbera tryggi almennar leikreglur og treysti eftir því sem kostur. Því er takmörkunum háð, herra forseti, að virk samkeppni geti átt sér stað. Þá er ég að vísa til Mekka kapítalismans, Bandaríkjanna, sem hefur gengið býsna langt í þessum efnum og miklu lengra en íslensk samkeppnisyfirvöld hafa látið sig dreyma um. Dæmi sem allir þekkja í tölvuiðnaðinum og er ofarlega á baugi er Microsoft og Bill Gates.

Af því að þeir sjálfstæðismenn þekkja mál Evrópusambandsins býsna vel þá hefur það líka gengið mjög langt í þessum efnum og gert um langt árabil. En það er eins og menn líti þannig á að Ísland eigi bara að vera eyland, ekki aðeins landfræðilega heldur einnig þegar kemur að ýmsum þeim lögmálum sem lögnu hafa verið viðurkennd meðal samfélagsþjóðanna að þá skuli frumskógarlögmálið gilda hér á landi. Þetta er fjarri lagi og því er svo brýnt sem ég hef hér sagt að þetta frv. og önnur ámóta nái efnislegri umræðu og framgangi við lagasetningu á hinu háa Alþingi.

Nú af því að tíminn líður hratt þarf ég að segja nokkur orð við hæstv. ráðherra. Hann var á kreiki hér rétt áðan. Orðaskipti mín við hann lúta að þeirri endurskoðun sem hann lýsti áðan, endurskoðun samkeppnislaganna.

Herra forseti. Mætir nú hæstv. ráðherra til leiks. Hann lýsti áðan í andsvari áðan og kom raunar inn á það í ræðu sinni að nefnd sú sem hefur verið að störfum, væntanlega nefnd embættismanna sem eftir því sem ég best veit, hefur verið að skoða árangurinn af þeim lögum sem eru í gildi hvað varðar samkeppnismarkaðinn og Samkeppnisstofnun. Ég vil spyrja hann um það hvort áform hans séu í þá veru að sú nefnd komi til með að setjast niður og semja þær heildstæðu breytingar sem hann lýsti áðan um samkeppnislögin eða hvern hann ætlar að kalla til starfa í því sambandi.

Ég vil því kasta þeirri hugmynd upp og bið um viðbrögð hæstv. ráðherra við því að hann nálgist það mál með eilítið öðrum hætti af því að málið er ekki komið á meiri rekspöl en raun ber vitni og hann kalli til fulltrúa flokkanna og geri úr þessu þverpólitíska nefnd. Ég held að það mundi styrkja hið pólitíska vægi slíkrar nefndar og í þeim efnum mundu menn freista þess að ná þverpólitískri sátt um tiltekin meginmarkmið sem ég vil þó þrátt fyrir allt trúa að séu í millum a.m.k. flokks míns, Samfylkingarinnar, og flokks hæstv. ráðherra, Framsfl., um meginatriði samkeppnislaganna.

Ég vil með öðrum orðum spyrja hvort það komi til álita af hans hálfu að nefndarskipan, sem setti saman greinargerð um hugsanlegar breytingar á samkeppnislögum, mætti skipa, ekki eingöngu upp á embættislega vísu, ekki eingöngu með aðild stjórnarflokkanna, heldur að þar kæmu að verki fulltrúar stjórnarandstöðu.