Byggðakvóti

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:10:51 (901)

1999-11-01 15:10:51# 125. lþ. 16.1 fundur 94#B byggðakvóti# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Enda þótt hæstv. ráðherra byggðamála hafi ekki hingað til blandað sér í hvernig að þessu hefur verið staðið, þá fannst mér a.m.k. full ástæða til þess að á hinu háa Alþingi færi fram umræða um þessi mál einfaldlega vegna þess að það skiptir verulegu máli hvernig farið er í úthlutun veiðiheimilda. Spurning mín áðan var tiltölulega einföld: Telur hæstv. ráðherra byggðamála að útboð sé rétta leiðin þegar úthluta á takmörkuðum gæðum eins og veiðiheimildir eru sannarlega?

Ég vil vitna til þess, herra forseti, að Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, hvatti til þess að þeir fylktu sér á bak við þessar hugmyndir sveitarstjórnar Vesturbyggðar vegna þess að hann taldi að ekki ætti að búa til reglur um úthlutun eins og verið er að gera í hverju sveitarfélaginu á fætur öðru því að slíkt mundi ávallt vekja upp öfund, gremju og sundurlyndi. Það er einmitt þetta sem sveitarfélögin standa frammi fyrir og þess vegna er svo mikilvægt að skýrt verði hvernig í þetta verði farið og jafnræðisreglu verði gætt.