Útboð á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:40:22 (923)

1999-11-01 15:40:22# 125. lþ. 16.1 fundur 99#B útboð á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurningin var tvíþætt, annars vegar um fjárhagslegar skuldbindingar Hafnarfjarðarbæjar og fjárveitingar til hans. Um það mál hef ég í sjálfu sér ekkert að segja. Samið hefur verið um það hvernig staðið er að fjárskuldbindingum milli ríkisins og sveitarfélaganna vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna. Sá samningur er í gildi og innan þess samnings starfa sveitarfélögin.

Varðandi síðari þáttinn, um útboð á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði, er það svo að samkvæmt grunnskólalögum er gert ráð fyrir því að sveitarfélög reki grunnskóla. Þetta erindi frá Hafnarfjarðarbæ hefur verið til athugunar í menntmrn. og á eftir að kanna það betur, enda þarf ráðuneytið að fá nánari tillögur frá Hafnarfjarðarbæ um einstaka þætti málsins, en samkvæmt grunnskólalögum hefur menntmrh. heimild til þess að veita sveitarfélögum og öðrum að gera tilraunir við rekstur grunnskólans og á grundvelli þeirrar heimildar gæti ég brugðist við því erindi.