Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:36:16 (959)

1999-11-02 15:36:16# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sverri Hermannssyni fyrir vinsamleg orð í garð utanríkisþjónustunnar. En vegna þess sem hann sagði um hlutlausa úttekt, þá er hún einfaldlega hugsuð sem úttekt sem mun verða unnin af þeim embættismönnum sem hafa mest starfað að þessum málum í gegnum árin og þekkja best til þessara mála og þeirra strauma sem leika nú um Evrópu. Það kann vel að vera að ýmsum muni finnast að hún verði ekki nógu hlutlaus og það verður þá að koma í ljós og menn geti þá bætt við. Ég býst við því að við munum jafnframt leita í smiðju þeirra aðila, bæði á vegum atvinnurekendasamtakanna og launþegasamtakanna, sem hafa unnið mjög mikið að þessum málum að undanförnu og sinnt þeim. Það er sú hugsun sem þarna er að baki.

Síðan verða menn að meta þetta eftir því sem mönnum finnst þegar þar að kemur, en a.m.k. vænti ég þess að þessi skýrsla geti orðið góður grundvöllur að málefnalegri umræðu og að menn sjái betur þá kosti sem við stöndum frammi fyrir. Ég á ekki sérstaklega von á því að það verði eingöngu góðir kostir, e.t.v. aðeins slæmir kostir. En það verður að koma í ljós.

Ég vil taka það fram út af því sem hér er sagt um einhvern meintan ágreining á milli samstarfsflokka í ríkisstjórn í Evrópumálum, að þessi ræða er flutt fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þetta er skýrsla ríkisstjórnarinnar um utanríkismál til Alþingis og ber að skoða í því ljósi. Um hana er ekki ágreiningur í ríkisstjórn. Ég bið menn um að taka það eins og það er. Það er ekki verið að senda nein skeyti í henni, hvorki á aðra ráðherra né aðra. En það getur svo sem vel verið að einhverjir taki þetta til sín. Ég heyri að hv. þm. gerir það ... (Forseti hringir.) og við því get ég ekkert gert.