Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:44:54 (1007)

1999-11-02 18:44:54# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur um að Norðurlandasamstarfið er mikill hornsteinn í íslenskri utanríkisstefnu en ég vildi með sama hætti taka fram að aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru líka mikilvægir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu. Ég tel að þessi tvö atriði skipti afar miklu máli og ég tek ekki undir með henni í sambandi við efasemdir um Atlantshafsbandalagið.

Ég vil líka taka fram að það er ekki rétt þegar því er haldið fram að Ísland geti staðið utan við atburði eins og gerðust í Júgóslavíu. Við verðum að ná samstöðu innan Atlantshafsbandalagsins og þeim aðgerðum sem Atlatnshafsbandalagið fer út í verður Ísland líka að standa að. Ef Ísland treystir sér ekki til þess, þá liggur það fyrir að Ísland getur ekki verið aðili að því bandalagi. Svo einfalt er það. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Ég tek eftir því að þingmenn Samfylkingarinnar hafa mikið verið að spyrja mig um hver stefnan væri að því er varðar bókunina. Ég hef lýst því lítillega, get ekki lýst því í smáatriðum, en mér finnst líka vera mikilvægt að þingflokkur Samfylkingarinnar komi sér saman um þau grundvallaratriði, hvort menn vilji vera í Atlantshafsbandalaginu og hvort menn vilji standa að varnarsamningnum við Bandaríkin.