Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:52:20 (1011)

1999-11-02 18:52:20# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:52]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Þessi umræða er orðin nokkuð löng eins og vera ber. Ég ætla ekki að lengja hana meira en góðu hófi gegnir.

Ég vil aðeins geta þess að í dag hefur lítil umræða orðið um nokkuð sem fjallað er um í ræðu hæstv. utanrrh., þar sem hann getur um sameiginlega utanríkis- og öryggismálastefnu ESB og áform um að flytja Vestur-Evrópusambandið inn í ESB. Ég ætla ekki að lengja þá umræðu en vil aðeins geta þess að áhyggjur ráðherrans af þessari þróun eru réttmætar og ég tel að Íslendingar verði að passa vel upp á að þeir verði ekki skildir eftir ásamt öðrum NATO-þjóðum sem standa utan Evrópusambandsins í einhverju tómarúmi þegar kemur að umræðum um öryggishagsmuni Evrópu.

Það sem mig langar til að gera að umræðuefni í lokin eru umhverfismálin. Hér í dag hefur mikið verið komið inn á umhverfismálin og ég sakna þess svolítið að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er ekki viðstödd. Hún hefur fjallað meira en aðrir þingmenn um umhverfismál og umhverfismálin koma vissulega til umfjöllunar í ræðu hæstv. utanrrh. og með mjög athyglisverðum hætti.

Þar er réttilega bent á að umhverfismálin eru samofin öryggismálunum og við þurfum að gæta mjög vel að því að tryggja öryggishagsmuni okkar með samstarfi á alþjóðlegum vettvangi. Það er ljóst að við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum með Evrópusambandsríkjunum sem leggja nú, undir forustu Finna, mikla áherslu á þessa norrænu vídd. Við eigum mjög sterkra hagsmuna að gæta innan Norðurskautsráðsins. Þó Bandaríkjamenn hafi hafi heldur haldið sig til hlés í því samstarfi þá vona ég að fram undan séu betri tímar.

Ég vil aðeins koma inn á Kyoto-bókunina og samkomulagið um lofthjúpinn. Mér finnst lofsvert að menn hafi áhyggjur af umhverfismálum og ekki síst af mengun lofthjúpsins. Það er full ástæða til þess og ég hef einnig áhyggur af þeirri mengun. Þá er ég ekki að tala um gróðurhúsaáhrifin, ekki beinlínis, vegna þess að það hefur ekki tekist að sanna að gróðurhúsaáhrifin séu staðreynd. Það eru reiknilíkön sem hafa styrkt sig ár eftir ár þannig að líkurnar á að hér séu gróðurhúsaáhrif hafa aukist. Við erum nær því en áður að geta leitt sterk rök að því. En jafnvel þó litið væri fram hjá gróðurhúsaáhrifunum, sem eru mjög alvarleg ef þau eru staðreynd, þá er það staðreynd að brennsla jarðefna veldur gífurlegri mengun í heiminum og svo alvarlegri staðbundinni mengun að það verður að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að fólk bíði ekki beinan heilsuskaða af.

Ég vil benda á --- og enn sakna ég hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur --- að höfuðmengunarvaldur að því er varðar lofthjúpinn, gróðurhúsalofttegundirnar, er orkuframleiðslan í heiminum. Orka framleidd með brennslu jarðefna, brennslu kola, olíu og gass er höfuðmengunarvaldurinn í lofthjúpnum. Þess vegna verða menn, þegar þeir tala um Kyoto-samkomulagið og möguleikana á að vinna bug á þessum vanda, að skoða samkomulagið mjög náið og gera grein fyrir því hvernig orkuöflunarþróunin á að vera til að samræmast þeim markmiðum sem sett eru fram í Kyoto-samkomulaginu. Ég benti á þetta í ræðu minni áðan, sem reyndar var andsvar, að það vantar mikið á að samræmi sé á milli stefnu Evrópuríkjanna, svo við tökum dæmi, í orkumálum og hins vegar í umhverfismálunum.

Það vantar mikið upp á að umhverfissamtök og stjórnmálaflokkar sem byggja hugmyndafræði sína í kringum umhverfismál sýni fram á að þeir taki tillit til þess hvaða áhrif orkuvinnslan sjálf, orkulindirnar sem nýttar eru, hefur á lofthjúpsmálin. Ég skal gefa dæmi. Það er mikið barist gegn kjarnorkuvinnslu, þ.e. raforkuframleiðslu með kjarnaofnum, víða í Evrópu. Sú barátta er rekin af umhverfissamtökum og stjórnmálasamtökum sem setja umhverfismál á oddinn. Spurningin sem vaknar er þessi: Hvað mundi koma í staðinn fyrir kjarnorkuna ef kjarnorkuframleiðslan yrði minnkuð? Það liggur ljóst fyrir að vatnsorkan getur komið í staðinn fyrir hluta af þeirri orku sem framleidd er með kjarnorku, vindorka hefur mjög litla möguleika, sólarorka afar takmarkaða og jarðvarmi sem finnst eiginlega alls staðar í heiminum í heitum jarðlögum er enn svo firnadýr orka að hún mun sennilega ekki leysa þennan vanda að nema að litlu leyti eftir fjölda ára.

Þá er spurningin: Er æskilegt frá sjónarmiði umhverfismála að kjarnorkan verði minnkuð og í staðinn komi gas-, kola- og olíubrennsla? Það er mjög hæpið. Það mundi alla vega koma gersamlega í veg fyrir að menn gætu staðist kröfur Kyoto-bókunarinnar.

Eigum við að líta yfir sviðið og sjá hversu mikilvæg kjarnorkan er? Finnland framleiðir 27% af raforku sinni með kjarnorku. Svipað er það með Þýskaland, Bretland og Spán. Síðan koma mörg lönd í Evrópu: Ungverjaland, Slóvenía, Búlgaría, Úkraína og Sviss ásamt svo því fjarlæga landi Japan, sem láta kjarnorku standa undir frá 36 upp í 40% af allri raforkuvinnslunni. Þá á eftir að nefna Evrópuríkin þrjú sem eru með mesta kjarnorkuvinnslu, þ.e. Belgía með 55%, Frakkland með 76% og á toppnum er Litháen með 77% af raforkuframleiðslunni í gegnum kjarnaofna. Bandaríkin eru til þess að gera með litla framleiðslu, þau eru með 19% sem er samt gífurlega mikið. Þessar tölur segja okkur að ef menn fara þá leið sem Svíar hafa farið, að lýsa því yfir að þeir ætli að loka kjarnorkuverum sínum og Þjóðverjar eru að takast á um, þá þarf að fylla upp í ærið stórt gat. Það eru engar áætlanir sem sýna fram á annað en að það yrði að mestu leyti fyllt með brennslu jarðefna.

[19:00]

Það er rétt að menn horfist í augu við þessa staðreynd vegna þess að ef þessum áformum verður hrundið í framkvæmd þá standa menn uppi með mikinn loftslagsvanda. Og er þetta æskileg þróun? Nú þorir enginn, vegna áróðurs gegn kjarnorku, að fjárfesta í kjarnorkuvinnslu, enginn, í friðsamlegri notkun kjarnorkunnar. Hvergi í Evrópu eru menn virkilega að fjárfesta í þessu. Og hvers vegna? Það er vegna þess að áróðurinn er svo harður gegn kjarnorkunni. Engu að síður er alveg ljóst miðað við þessar prósentutölur sem ég hef minnst á hér að lífsnauðsyn er, líka út frá Kyoto-prótókollinum, að stórbæta kjarnorkuvinnsluna. Hún er óviðunandi eins og hún er nú. Hún er náttúrlega gjörsamlega óviðunandi í Austur-Evrópu, en hún er líka óviðunandi í Vestur-Evrópu miðað við geislavirka kjarnorkuúrganginn sem menn leggja frá þessum kjarnorkuverum, eða endurnýta, sem er nú ekki góð aðferð heldur. Alveg öfugt við það sem mörg umhverfissamtök og stjórnmálaflokkar sem berjast fyrir umhverfismálum eru að segja þá er nauðsynlegt að fjárfesta í betri tækni í kjarnorkuiðnaðinum vegna þess að það er ekki fyrirsjáanlegt að menn geti lagt þennan iðnað niður öðruvísi en þá með því að auka útblástur mengandi gastegunda.

Mér finnst alla vega, þegar menn tala um þessi mál, að nauðsynlegt sé að horfast í augu við þessa hlið málsins. Það er nauðsynlegt að horfast í augu við þessa hlið málsins af því að orkumálin og umhverfismálin eru ekki einföld. Þau eru í raun afar flókin og það er alveg eðlilegt að gera þá kröfu til ríkja, eins og t.d. ESB ríkjanna, að þau geri grein fyrir því hvernig þau hafa hugsað sér að framfylgja stefnu einstakra ríkja án þess að auka brennslu jarðarinnar. Þau hafa skuldbundið sig með undirritun í Kyoto til þess að minnka brennslu jarðefna.

Þar af leiðandi finnst mér að við getum horft á stefnu íslenskra stjórnvalda í þessu máli í ljósi þessara staðreynda. Þá finnst mér að við eigum ekki að gera lítið úr þeim vilja íslenskra stjórnvalda að nýta umhverfisvæna orku. Því eru sjálfsagt takmörk sett hvað er hægt að nýta vatnsorkuna mikið. En því eru líka takmörk sett hvað er hægt að nýta vindorku. Nú er svo komið á vissum stöðum í Danmörku að það er farið að berjast gegn vindorku vegna þess að möstrin eða myllurnar eru orðnar svo margar að þær eru farnar að valda því sem kallast sjónmengun þar og svipuð staða er reyndar komin upp á vissum svæðum Þýskalands. Það er alveg ljóst að vindorkan hefur mjög takmarkaða möguleika á meðan ekki er hægt að geyma orku. Á meðan ekki er hægt að geyma orkuna þá hefur vindorkan kannski möguleika einhvers staðar á bilinu 8--13%. Evrópubandalagið hefur sett sér það markmið að koma því upp í 13% en er mjög langt frá því.

Ég vildi aðeins bæta þessu við vegna þess að mér finnst að það hafi verið veist hér að hæstv. utanrrh. í umhverfismálum með mjög ósanngjörnum hætti og að afstöðu ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar með afskaplega óraunsæjum hætti og ósanngjörnum. Þeir sem það gera verða a.m.k. að gera svo vel og svara því hvernig þeir tengja saman orkumálin og umhverfismálin. En þeir hafa ekki minnst á það í þessari umræðu.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram vegna þess að umræðan um umhverfismálin er svo sannarlega mjög mikilvæg og kannski eitt af mikilvægustu utanríkismálum sem við fjöllum um. Þess vegna er afar brýnt að við tökum höndum saman og reynum að koma þessari umræðu niður á einhvern raunsæjan grundvöll.