Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:04:52 (1012)

1999-11-02 19:04:52# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál núna, aðeins að víkja að Evrópumálunum. Ég tek undir það með hv. þm. Tómasi Inga Olrich að það er mikilvægt að umræða um umhverfismál fari fram á málefnalegu plani. Þetta eru orð að sönnu. Þetta er einn mikilvægasti málaflokkur utanríkismála.

En mig langaði til að víkja aðeins að Evrópumálunum. Í ræðu sinni bendir hæstv. utanrrh. réttilega á að það eru að eiga sér stað breytingar innan Evrópusambandsins. Fyrirsjáanleg er stækkun bandalagsins, til sögunnar er kominn sameiginlegur gjaldmiðill, evran, og þar fram eftir götunum. Í ljósi þessara hræringa og breytinga leggur hæstv. utanrrh. til að gerð verði hlutlaus úttekt þar sem farið verði yfir starf Evrópusambandsins lið fyrir lið, eins og segir í hans skýrslu.

Sannast sagna þá stóð ég í þeirri meiningu að stöðugt væri verið að gera slíka úttekt. Á vegum utanrrn, á vegum ráðuneyta, á vegum stofnana samfélagsins eru menn að velta vöngum yfir kostum og göllum aðildar að hinu Evrópska efnahagssvæði, Evrópusambandinu eða öðrum kostum. Þessi umræða fer stöðugt fram í þjóðfélaginu og á stöðugt að fara fram í þjóðfélaginu. Ég held að fáir aðilar hafi hvatt eins mikið til umræðu um Evrópumálin og sú hreyfing sem ég tilheyri, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð. (Utanrrh.: Ha!) Fáir aðilar hafa hvatt af eins miklum krafti til umræðu um Evrópumálin og okkar hreyfing hefur gert. Hún hefur ekki gert það samkvæmt þeim formúlum sem hæstv. utanrrh. vill að þessi mál séu rædd, en hún hefur hvatt til þessarar umræðu. Og það er ekki rétt sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að það ríki eindrægni í þjóðfélaginu og menn séu almennt sammála um að hið Evrópska efnahagssvæði hafi veitt okkur ávinning og ekkert annað en ávinning, eins og kom fram í hennar máli að væri ekki umdeilt. Það er umdeilt. Ég hef t.d. gagnrýnt aðild okkar að EES og tel að við eigum að reyna að þróa það inn á aðrar brautir en það hefur þróast. Ég tel að samningurinn um EES þrengi um of að lýðræðinu á Íslandi. Ég tel svo vera. Ég hef margoft sagt það, skrifað um það margar blaðagreinar og ég er ekkert einn á báti í þeim efnum. Þjóðin skiptist í fylkingar gagnvart afstöðunni til Evrópusambandsins vegna þess að þessi umræða er ekkert í einhverju tómarúmi. Menn eru að taka afstöðu til þessara mála öllum stundum. Þjóðin skiptist í þrjár fylkingar í grófum dráttum. Þeir sem vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu er ein fylkingin og merkjamál hennar til að koma þessum boðskap á framfæri er að segja: ,,Evrópumálin eru á dagskrá.`` Auðvitað er umræða um Evrópusambandið og Evrópumálin á dagskrá og búin að vera það öllum stundum með þjóðinni allri. En á máli stjórnmálanna, á merkjamáli stjórnmálanna, þýðir þetta að menn vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu. Síðan hafa menn reynt að snúa út úr þessu á alla vegu og kanta, þ.e. hvort menn vilji ekki virkilega ræða um Evrópusambandsmálin, þegar þetta er hin raunverulega merking. Evrópusambandið á dagskrá þýðir í reynd að menn vilji sækja um aðild og láta reyna á þá þætti sem eru umdeildastir. Við erum sennilega öll sammála um að við viljum standa vörð um okkar sjávarútvegshagsmuni og það að láta reyna á aðild er væntanlega að kanna hvort við náum ásættanlegum samningum um það efni. Það er það sem menn vilja láta gera. En menn vita að öðru leyti nokkurn veginn að hverju þeir ganga. Þeir eru að ganga inn í þennan almenna markaðssáttmála og leggjast síðan undir reglugerðarverkið. Þeir vilja taka þessu og færa lýðræðisleg rök fyrir máli sínu og segja: ,,Með þessu móti er líklegra að við getum haft áhrif á framvinduna. Við erum þá komin inn í hin lýðræðislegu batterí.``

Síðan er það hin fylkingin sem telur að lýðræðinu sé ekki vel borgið með þessum hætti, að við fáum litlu þokað, þessi litla þjóð okkar, og að það séu hagsmunir Íslendinga að standa sem sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóða, og það er einmitt sá þáttur sem er víkjandi í starfi Evrópusambandsins. Menn voru að ræða það um daginn í Helsingfors að það væri fyrirsjáanlegt innan Evrópusambandsins að neitunarvald einstakra ríkja væri víkjandi t.d. Og þá erum við komin nær því sem er fyrirsjáanlegt að mínum dómi að gerist, þ.e. að Evrópusambandið hafi að geyma einstaklinga á markaði þar sem ráðandi pólitískt afl í sífellt ríkari mæli verði þingið, Evrópuþingið, en þjóðríkið verði víkjandi. Ég hef efasemdir og miklar efasemdir um að hagsmunum Íslendinga verði best borgið með þeim hætti. Þetta er sem sagt hin fylkingin sem er andvíg því að við látum reyna á aðild af þessum sökum. Við teljum að lýðræði á Íslandi og hagsmunum Íslendinga verði ekki best borgið með þessu, alls ekki.

Síðan er hópur sem hefur hugsanlega ekki áhyggjur af stöðunni og vill bíða átekta. Ég heyri til þeim hópi sem vill reyna strax að við fetum okkur inn á þá braut að þróa EES-samninginn í átt til tvíhliða samnings. Mér hugnast t.d. miklu betur það fyrirkomulag sem Svisslendingar búa við. Þeir hafa tekið margt úr reglugerðarverki og samþykktum Evrópusambandins en eru ekki í skuldbindandi samstarfi. Þeir eru það ekki. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi umræða fari fram af heiðarleika og menn segi raunverulega hvað vaki fyrir þeim vegna þess að mér finnst þessi umræða ekki vera heiðarleg. Mér finnst sama gæta í þessari umræðu og hefur stundum gætt t.d. í einkavæðingarumræðunni. Þar sem menn vita að þetta er viðkvæmt deilumál með þjóðinni, að t.d. einkavæða bankana á sínum tíma, einkavæða Landssímann o.s.frv., þá er alltaf byrjað á sama hátt. ,,Við erum bara að skoða málin. Við erum bara að kanna málin. Við erum bara að breyta rekstrarforminu. Það á ekkert að selja.`` Síðan er náttúrlega búið að selja. Það var verið að ganga frá sölunni á FBA í gær og nú segja allir sem sögðu að Landssíminn yrði aldrei seldur: ,,Auðvitað á að selja hann.`` Auðvitað vissum við þetta. Við bentum á þetta hér úr þessum ræðustól. Og nú segja menn: ,,Við erum bara að gera úttekt. Við erum bara að kanna málin. Við erum bara að skoða málin.``

Ég geri mér grein fyrir því að innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um framhaldið. Það hefur ekki reynt á það. En það er ekki að skilja af málflutningi hér að menn séu sammála hvert skuli halda í þessum efnum. En það er þetta sem að sætir tíðindum og er pólitískt mikilvægt. Og þess vegna er ekkert óeðlilegt að menn ræði það, og ráði í orðsendingar hæstv. utanrrh., að það er í þessu samhengi sem ber að skoða hlutina, í því samhengi að það er stöðugt og alla daga og allar vikur og alla mánuði verið að gera þessa úttekt. Við erum að vega og meta kosti. Að sjálfsögðu erum við að gera það. En þegar menn kjósa að segja hlutina eins og nú er gert, að þetta sé á dagskrá, þá eru menn að senda út pólitíska merkjasendingu. Þannig hef ég skilið þetta.

Ég vil hvetja til þess að þessi umræða fari fram á heiðarlegum nótum, að menn segi hug sinn í þessum efnum. Vilja menn sækja um aðild að Evrópusambandinu, eins og mér skilst að margir innan Samfylkingarinnar t.d. vilji? (RG: Menn vilja umræðu um það. Fólk getur ekki ...) Já, við erum að taka þátt í slíkri umræðu öllum stundum. (RG: Nei.) Erum við ekki að gera það?

[19:15]

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir segir að við viljum ekki umræðu um þetta. Við erum öllum stundum að ræða þessi mál. Við erum að ræða kosti og galla samvinnunnar við Evrópusambandið. Ég hef bent á og gagnrýnt EES-samninginn. Við vildum t.d. mikla umræðu um EES-samninginn á sínum tíma. Ríkisstjórn Alfþfl. og Sjálfstfl. neitaði okkur um að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu, neitaði okkur um slíka umræðu, því miður. Ég hef verið hvatamaður þess að slík umræða fari fram um alla þessa þætti öllum stundum.

En auðvitað vitum við nákvæmlega hvernig þetta landslag er. Hvað er það sem menn ekki vita? Vilja menn koma hér upp í stólinn og segja mér það. Hvað er það sem við ekki vitum? Það sem við ekki vitum eða menn telja sig ekki vita er fyrst og fremst eitt. Það eru margir sem telja það ekki fullreynt að við náum ekki samkomulagi um sjávarútvegsmálin. Það er það sem menn telja sig ekki vita. Er það ekki rétt hjá mér? Ég vona að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir komi upp og skýri þetta fyrir mér. Ég er að spyrja hvort ekki sé rétt að það sem menn telja sig ekki vita er hvort við náum ásættanlegu samkomulagi um sjávarútvegsmálin. Annað þekkjum við fullkomlega.

Þarna er ég að leggja áherslu á að við skiptumst í fylkingar, annars vegar þeir sem vilja láta reyna á aðild að bandalaginu og hins vegar eru hinir sem vilja reyna að þróa þetta samstarf í átt til tvíhliða samkomulags.