Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:28:05 (1019)

1999-11-02 19:28:05# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mín skoðun að flestir þeir sem höfðu efasemdir á þeim tíma þegar EES-samningurinn var gerður hafi skipt um skoðun í dag þó að það eigi ekki við um hv. þm. og fleiri sem hann vísar til. Það er ekki skoðun viðræðuaðila minna hjá Samtökum iðnaðarins sem hins vegar deila þeirri skoðun minni að þessi samningur hafi sennilega verið sterkasti áhrifavaldur þeirrar uppsveiflu sem við náðum upp á síðasta kjörtímabili.

Ég vil síðan bæta við það sem ég nefndi áðan, herra forseti, þegar ég var að tala um afstöðuna til hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu og af því að hv. þm. spurði mig sérstaklega um sjávarútvegsstefnuna, þá vil ég vísa til þess að þrátt fyrir að það sé stóra málið sem ævinlega hefur verið dregið fram í umræðunni þá nefndi hæstv. utanrrh. í kjölfar landsfundar flokks síns sl. haust einn möguleika sem lítið hefur verið ræddur síðan en það er nefnilega möguleikinn á að fá eitthvert afmarkað hafsvæði á Norður-Atlantshafi undanskilið sjávarútvegsstefnu sambandsins. Ég nefni þetta sérstaklega til að undirstrika umræðuna um hvað yrði ef við færum inn og hver staðan er. Geta menn vitað allt fyrir fram? Menn vita það ekki fyrir fram. Það þarf að fara í þá skoðun, það þarf að gera úttekt og kanna hvaða möguleikar eru í boði til að fólk geti tekið heilsteypta afstöðu.