Forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 13:59:32 (1049)

1999-11-03 13:59:32# 125. lþ. 18.2 fundur 105. mál: #A forgangur kostaðra dagskrárliða Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að við þurfum að komast út úr þessum pólitísku afskiptum af Ríkisútvarpinu. En, virðulegi forseti, það á þá að gilda á báða bóga, jafnt með þau pólitísku afskipti sem stofnunin hefur orðið að þola frá hendi menntmrh. og Sjálfstfl. í mannaráðningum sem og þau pólitísku afskipti sem hér eiga sér stað.

[14:00]

Ég get sagt það hér að ég væri fullkomlega sátt við það, hv. þm. Pétur Blöndal, að það sem hv. þm. kallar skyldu\-áskrift en ég kýs að kalla afnotagjald verði fellt niður og að íslenska ríkið standi að baki sínu ríkisútvarpi með heiðri og sóma, efli það í hvívetna og sjái til þess að það geti haldið úti metnaðarfullri dagskrárgerð, bæði menningarlegri eins og Rás 1 hefur staðið fyrir og sömuleiðis dægurmenningarlegri eins og Rás 2 hefur staðið fyrir. Þess utan eigum við, ríkið, að standa að því að reka öfluga sjónvarpsrás með öflugri innlendri dagskrárgerð. Þetta hefur íslenska ríkið ekki gert Ríkisútvarpinu kleift nema að hálfu leyti og þá með afnotagjöldum.

Varðandi þær umræður sem hér hafa farið fram um hvort dagskrárgerðarmaður sé sár yfir því að hann hafi ekki verið beðinn afsökunar, þá stangast upplýsingar mínar greinilega á við upplýsingar hæstv. ráðherra. Hér er að sjálfsögðu um það að ræða að dagskránni er ekki sýnd sú tilhlýðilega virðing, að mínu mati, að hún fái að standa á þeim tíma þar sem hún á að vera, þar sem hlustendur eru vanir að hafa hana. Við skulum athuga það að hlustendur Ríkisútvarpsins eru afskaplega tryggir og þeir eiga sína kröfu á traust á stofnuninni.

Hæstv. menntmrh. hefur staðið að því að veikja tiltrú hlustenda á þessari ágætu stofnun. Ég óska þess að hér linni.