Uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 03. nóvember 1999, kl. 14:54:39 (1072)

1999-11-03 14:54:39# 125. lþ. 18.6 fundur 72. mál: #A uppbygging fjarskipta á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 125. lþ.

[14:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir fyrirspurnina, en hún hljóðar svo:

,,Á hvern hátt hyggst ráðherra stuðla að uppbyggingu fjarskiptanets á landsbyggðinni á kjörtímabilinu þannig að sem flestir landsmenn geti á sem bestan og auðveldastan hátt nýtt tölvu-, síma- og samskiptatækni nútímans?``

Þessu er til að svara að þróun fjarskiptaneta er hröð og á síðustu fimm árum hefur burðargeta fjarskiptakerfa aukist mjög mikið. Því er erfitt að spá fyrir um hvers konar fjarskiptanet verði hagkvæmast að byggja upp á landsbyggðinni.

Á sama tíma og fjarskiptatækni gerir fjarlægðir að engu er ljóst að munur er á aðstöðu fyrirtækja eftir staðsetningu. Slík staða er að mínu mati óviðunandi því mikilvægi í öryggi og hagkvæmni fjarskipta verður æ augljósara.

Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að bæta stöðu landsbyggðarinnar m.a. með því að skapa skilyrði til aukinnar samkeppni. Í október sl. var leigulínuverðskrá Landssíma Íslands hf. aðlöguð að kostnaði sem hafði það í för með sér að leigulínuverð lækkaði verulega og enn frekari lækkunar er að vænta á næstunni. Þessar verðlækkanir ættu að hafa í för með sér nýja möguleika fyrirtækja á landsbyggðinni til að nota fjarskipti í rekstri sínum. Aukin notkun gerir svo virka samkeppni að raunhæfum kosti.

Í vikunni lagði ég fram frv. til laga um fjarskipti. Þetta frv. hefur að geyma mikilvæg nýmæli sem eiga að tryggja aðgang allra landsmanna að gagnaflutningsþjónustu og hvata til uppbyggingar fjarskiptamarkaðar á landsbyggðinni, sem eru þessi helst:

1. Tryggt verði að ISDN-gagnaflutningsþjónusta eða jafngild fellur undir svokallaða alþjónustu eins og talsímaþjónusta gerir í gildandi lögum. Þetta tryggir að allir landsmenn eiga þess kost að njóta gagnaflutnings á sanngjörnum kjörum eins og rakið er í 13. gr. frv., svo ég vísi til þess þó að það sé ekki til umræðu.

2. Ljóst er að frekari aðlögun gjaldskrár að raunverulegum kostnaði mun eiga sér stað og gera notkun fjarskiptatækni í hinum dreifðari byggðum enn ódýrari en nú er.

3. Tryggt verði að fjarskiptafyrirtæki muni fá aðgang að fjarskiptanetum hvers annars. Fjarskiptafyrirtæki skulu veita samtengingu á kostnaðarverði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þetta mun leiða til þess að mögulegt verður að byggja upp minni fjarskiptanet heima í héraði sem svo tengjast t.d. ljósleiðara annars fjarskiptafyrirtækis. Þeir sem byggja upp slík net mega treysta því að þeir fái samband við næstu sveit og umheiminn allan á skaplegu verði, ef allt fer fram sem horfir og nú er lagt upp með.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að Landssíminn og Íslandssími hafa gert samning nýverið um samtengingu og það skapar mikla möguleika fyrir ný fyrirtæki að eiga þess kost að tengjast neti Landssímans sem allir þekkja að er um allt land en að vísu mismunandi öflugt.

Með nútímafjarskiptatækni aukast möguleikar allra landsmanna til að nýta sér á auðveldan hátt tölvu- og símatækni. Ísland er í einstakri stöðu í heiminum í dag. Hér á landi er einhver almennasta tölvueign í veröldinni og yfir 80% landsmanna hafa aðgang að internetinu. Þetta tækifæri verður að nýta því að það getur leitt af sér betri lífskjör á varanlegum grunni. Því er brýnt að stuðla að frekari uppbyggingu fjarskiptanetanna og þjónustunnar sem veitt er í tengslum við þau.

Það fjarskiptalagafrv. sem hér hefur verið lagt fram og ég vísaði til, miðar einmitt að því að efla uppbyggingu fjarskiptaneta með þeim leiðum sem best hafa reynst.

Að endingu er rétt að geta þess að samgrn. er aðili að vinnu við úttekt á burðargetu fjarskiptakerfanna, bæði innan lands og milli landa, svo og að gera áætlun um þörfina í framtíðinni, en þessa úttekt er nú verið að framkvæma fyrir ráðuneytið og verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið. Vonir standa til að fá á allra næstu dögum niðurstöðu þeirrar úttektar og verður hún þá kynnt.

Enda þótt uppbygging fjarskiptakerfa og fjárfesting á þessu sviði sé nú verkefni einkaaðila ber stjórnvöldum engu að síður að setja almennar leikreglur og tryggja að bandvídd og tengingarmöguleikar séu fullnægjandi. Ég vænti þess að niðurstöður úttektarinnar sem ég vísaði til muni nýtast samgrn. til enn frekari stefnumótunar í þessum efnum.