Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 14:14:48 (1138)

1999-11-04 14:14:48# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Já, það er slæmt. Það er slæmt að það skuli dregið úr stuðningi við barnafólk. Við vitum að barnafólk, sérstaklega láglaunafólk og millitekjuhópar hafa allt of litla fjármuni handa á milli. Það er staðreynd. Þeir höfðu það fyrir fáeinum árum og hafa það enn. Þess vegna er það slæmt þegar ríkisstjórnin neitar að láta viðmiðunarmörk í barnabótakerfinu, og hið sama gildir um skattleysismörkin, fylgja launaþróun og skerðir framlagið þannig að raungildi.

[14:15]

En nú ætla ég að gera eitt, ég ætla að taka upp hanskann fyrir hæstv. menntmrh. gagnvart málflutningi hv. þm. Péturs Blöndals, því ég vil forða því að hæstv. menntmrh. festist í því fari sem hv. þm. Pétur Blöndal er að koma honum í, þ.e. að hann sé búinn að lofa því að einkavæða barnaskólana í Hafnarfirði. Ég held nefnilega að sannleikurinn sé sá að Björn Bjarnason hafi sagt að hann sé að skoða málið, en hafi ekki lofað að láta verða af þessari hótun sinni. Ég held að hann hafi ekki gert það. Fyrir utan það náttúrlega að það væri lögbrot. En menn hafa nú gert annað eins svo sem að finna einhverjar leiðir til að koma málum sínum fram því að enn er það svo að ekki er bannað með lögum að breyta lögum og það hefur þessi ríkisstjórn gert. Hún hefur breytt lögum í þágu fjármagnsaðila en gegn almenningi og það er einmitt það sem hefur verið til umræðu hér í tengslum við þessi fjáraukalög.