Fjáraukalög 1999

Fimmtudaginn 04. nóvember 1999, kl. 16:03:43 (1159)

1999-11-04 16:03:43# 125. lþ. 20.6 fundur 117. mál: #A fjáraukalög 1999# frv. 129/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna úr ræðu hv. þm. Varðandi það sem hann sagði um Samband íslenskra sveitarfélaga og samskipti ríkis og sveitarfélaga þá vil ég hafa það skýrt að það mál er annað en það sem hér er verið að ræða, fjáraukalagafrv. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að fara frekari orðum um það. Það verður rætt á réttum vettvangi. Þar eru menn ósammála en það mál á ekki erindi inn í umræðu um fjáraukalögin.

Að því er varðar einstök atriði sem þingmaðurinn spurði um, þá er augljóst að auglýsingakostnaður Lánasýslunnar hefur mjög farið minnkandi og mun halda áfram að minnka. Ríkið tekur miklu minna að láni en áður var og ég vonast til þess að geta farið betur yfir það mál við betra tækifæri. Ég hef ekki á reiðum höndum nánari upplýsingar um það efni.

Mér er ekki kunnugt um að lögreglan í Reykjavík eigi í sérstökum vandræðum með að fjármagna fíkniefnarannsóknir sínar. Ég tel að ríkisstjórnin hafi fullan skilning og vilja til að hjálpa til í því máli eins og dæmin sanna. Sölvhólsgata 11 var keypt á grundvelli heimildar til þess að kaupa húsnæði í nágrenni Stjórnarráðsins, keypt af Landssíma Íslands en Landssíminn notar það enn. Ekki liggur fyrir hvenær húsnæðið kemst í notkun fyrir ríkið og Stjórnarráðið en hugmyndin er að flytja í þetta húsnæði ráðuneyti sem núna eru annars staðar en á torfunni í kringum Arnarhól.

Hvað lá á? Húsið var til sölu. Ef við hefðum ekki keypt á þeim tíma, þá hefði einhver annar keypt það og við misst af því.

Að því er varðar skólagjöldin í Brussel þá er spurt: Er ekki borð fyrir báru í ráðuneytunum til að fjármagna þetta? Mér finnst það alveg eðlileg spurning. Vitanlega á að vera ákveðið borð fyrir báru til að fjármagna þessa hluti. Það hefur ekki verið í þessum tilfellum sem er tekið á í frv. og þess vegna verður að leita eftir aukafjárveitingu frá Alþingi til þess að fjármagna þennan kostnað.