Tannvernd barna og unglinga

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:10:58 (1217)

1999-11-10 14:10:58# 125. lþ. 21.4 fundur 130. mál: #A tannvernd barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um að þörf sé á að ná til þessa litla hóps. Við róum að því öllum árum að ná til þeirra barna sem ekki fá þá tannlæknaþjónustu sem við viljum og er æskileg.

Mér finnst alveg nauðsynlegt að láta það koma fram að við leggjum verulega mikið fjármagn til forvarna sem öll börn njóta. Ég vil minna á, varðandi flúorpenslun sem hér var rætt um áðan, að Íslendingar leggja tvisvar eða jafnvel fjórum sinnum meira til flúorpenslunar en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Menn geta því ekki talað um að við sláum þar slöku við.

Það er alveg rétt sem fram kom að við verðum að nýta leikskólana og skólana o.s.frv. til þessa. Margir geta komið að þessu máli eins og hér var bent á, t.d. tannfræðingar, þeir eru að koma í auknum mæli í skólana og inn á leikskólana.