Lágmarkslaun

Miðvikudaginn 10. nóvember 1999, kl. 14:36:57 (1222)

1999-11-10 14:36:57# 125. lþ. 22.1 fundur 94. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er fyllsta ástæða til að veita andsvar við þessari ræðu hv. þm. Péturs Blöndals. Þar talaði hann bókstaflega niður til þeirra sem bágt eiga og illa eru settir. Hv. þm. talaði um sjálfsvirðingu. Ætli það skorti nokkuð á sjálfsvirðingu ekkjunnar sem þiggur matargjöf vegna þess að hún getur ekki framfleytt sér og börnum sínum? Ég efast um það. Ég efast um að það sé vegna þess að hana vanti sjálfsvirðingu.

Ég ætla ekki einu sinni að ræða um af hverju ekki sé gerð tillaga um milljón kr. í mánaðarlaun. Það er auðvitað bara eins og gaspur út í loftið.

Herra forseti. Ég ætla að svara nokkrum af þeim atriðum sem fram komu. Sagt var að ekki væri til góðs að setja lög um lágmarkslaun. En mjög víða erlendis eru sett lög um lágmarkslaun, a.m.k. í yfir 30 löndum og þar á meðal Ameríku og Frakklandi. Ég minni á að í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum var rætt um lágmarkslaun. Eitt af höfuðatriðum ríkisstjórnar Tonys Blair er að setja lög um lágmarkslaun og til viðbótar, það sem hér var rætt áðan, að skilgreina þarfir einstaklinga og fjölskyldna til framfærslu. Þetta eru stóru málin sem ekki hafa fengist hér í gegn og eitt af grundvallaratriðunum á bak við flutning þessa frv. um lágmarkslaun. Ég spyr til viðbótar: Telur hv. þm. Pétur Blöndal að 70 þús. kr. laun séu viðundandi til framfærslu einstaklings? Ég bendi á að u.þ.b. 6--8 þúsund manns eru með laun sem nema aðeins 70 þús. kr. á mánuði eða undir því.