Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 10:54:16 (1252)

1999-11-11 10:54:16# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[10:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til nýrra laga um fjarskipti. Þróun fjarskipta á undanförnum árum er undraverð. Jafnvel er fullyrt að fjarskipta- og upplýsingabyltingin muni hafa meiri áhrif á líf okkar allra en sjálf iðnbyltingin. Hún vísar veginn inn í nýja öld. Því er t.d. spáð að fjarskipta- og upplýsingaiðnaðurinn muni leggja stærri skerf til aukins hagvaxtar, aukinnar velferðar og nýrra atvinnutækifæra í löndum ESB en nokkur önnur atvinnugrein.

Stefna löggjafans og stjórnvalda, einkum afnám einkaréttarins á sviði fjarskipta, hefur vegið þungt í þessari þróun. Stefnumörkun á sviði fjarskipta byggist á nokkrum meginþáttum sem saman eiga að stuðla að virkri samkeppni sem tryggt geti hag neytenda, atvinnulífsins og þjóðfélagsins í heild. Það er því afar mikilvægt að ekki verði sofnað á verðinum heldur haldið fast á málum og þessi öra þróun nýtt okkur til hagsbóta.

Staða Íslands er nú góð í samanburði við aðrar þjóðir í þessum efnum. Símanotkun er mikil en u.þ.b. 171 þúsund notendur eru með síma í fastanetinu og 150 þúsund með farsíma. Þetta er eðlilegt þegar litið er til þess að símagjöldin á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist. Möguleikar Íslands til að leiða þróunina í notkun netmiðla eru miklir. Greinar á netinu frá því í júlí 1999 sýna að Ísland er í efsta sæti yfir internetnotkun en hér eru flestir notendur á hverja þúsund íbúa. Á hinn bóginn hefur aukin samkeppni á öðrum fjarskiptamörkuðum í Evrópu leitt til þess að við gætum misst forskotið.

Á Íslandi urðu tímamót í fjarskiptum hinn 1. jan. 1998. Lögbundinn einkaréttur var afnuminn með gildandi fjarskiptalögum og samkeppni heimiluð á öllum sviðum fjarskipta. Nú er hafin samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði. Því skiptir miklu að fyrirtæki eigi greiðan aðgang að markaðnum og að á Íslandi verði löggjöf eins og í öðrum viðskiptalöndum okkar.

Í því frv. sem ég mæli fyrir er skýrt kveðið á um að markmið laganna sé að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og að efla samkeppni á fjarskiptamarkaðnum. Þá er og jafnskýrt sett fram að íslenska ríkið skuli tryggja eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að fjarskiptaþjónustu. Þó aðeins séu liðin tæp þrjú ár frá setningu gildandi fjarskiptalaga er að mínu mati nauðsynlegt að breyta þeim í nokkrum veigamiklum atriðum. Fyrir því eru einkum eftirfarandi ástæður:

Í fyrsta lagi hafa orðið verulegar breytingar á fjarskiptatækni og fjarskiptaþjónustu. Á allra síðustu árum hefur krafan um sífellt hraðvirkari gagnaflutningsleiðir vaxið hröðum skrefum og stöðugt eykst fjöldi tölva sem tengjast netinu. Sem dæmi má nefna að í dag eru um 150 millj. internetnotendur í heiminum og áætlaður fjöldi fyrir næsta ár nálgast 200 millj. Samruni tals, gagna og mynda hefur haft það í för með sér að gömlu talsímanetin kunna að vera á hröðu undanhaldi fyrir nýjum tegundum fjarskiptaneta. Fjarskiptafyrirtæki eru ekki lengur símamálastofnanir á stöðugum markaði heldur fyrst og fremst hátæknifyrirtæki sem þurfa að mæta breyttum forsendum og nýjum aðstæðum á degi hverjum.

Í öðru lagi eru áhrif samkeppninnar smám saman að koma í ljós eins og aukin umsvif fyrirtækja á markaðnum gefa vísbendingu um. Ég vil nefna hér sem dæmi GSM-þjónustuna. Fyrir nokkrum árum var því spáð að við aldarlok yrðu 40 millj. GSM-notendur í ríkjum ESB. Í dag eru hins vegar 120 millj. farsímanotendur og margir telja jafnvel að nálægt hver einasti símnotandi verði með GSM-síma innan næstu fimm ára.

Eins og ég sagði áðan eru 150 þús. farsímanotendur hér á landi en með sanni má segja að það sé líkt og gerst hafi í gær að fyrsti GSM-síminn var tekinn í notkun hér á landi. Þriðja kynslóð farsíma mun væntanlega byggja á þessari velgengni og farsímanotendur munu því margfaldast á næstu árum og áratugum. Fleira mætti nefna eins og t.d. rafræn viðskipti sem munu fyrirsjáanlega aukast stórlega á næstu árum.

Í þriðja lagi hafa þarfir landsmanna breyst. Fyrir örfáum árum var aðgangur allra að talsímaþjónustu á sanngjörnum kjörum talinn grundvallaratriði. Í dag er aðgangur að góðum tölvusamskiptum ekki síður nauðsynlegur.

[11:00]

Með frv. þessu er íslensk löggjöf aðlöguð löggjöf hins Evrópska efnahagssvæðis um fjarskiptamál. Ég vek hins vegar athygli á því að tilskipanir EES á þessu sviði hafa að geyma lágmarksreglur sem aðildarríkjunum er ætlað nokkurt frelsi til að útfæra.

Við samningu frv. var farin sú leið að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti en einnig að efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Til að mæta þessu markmiði er í frv. litið til ýmissa atriða auk þeirra sem ég hef þegar nefnt. Þau helstu eru þessi:

Nauðsyn þess að tryggja samtengingu neta svo að viðskiptavinir ólíkra fjarskiptafyrirtækja geti haft samband sín á milli.

Nauðsyn þess að fyrirtækjum sem eiga þjóðbrautina (fjarskiptanetið) og aðra innviði sé gert skylt að opna aðgang að netinu og annarri aðstöðu á sanngjörnum kjörum.

Nauðsyn þess að stuðla að raunverulegri samkeppni á markaðnum með því að jafna samkeppnisstöðu fjarskiptafyrirtækja, t.d. með aðgangi að heimtaug.

Nauðsyn þess að markaðsráðandi fyrirtæki sé veitt aðhald, m.a. með kröfu um bókhaldslegan aðskilnað.

Nauðsyn þess að mæta þörfum allra landsmanna um að njóta ákveðinnar lágmarksþjónustu.

Nauðsyn þess að ávallt verði til öflug fjarskiptafyrirtæki á Íslandi.

Nauðsyn þess að löggjöf hamli ekki þróun upplýsingatækni og komi ekki í veg fyrir tækniframfarir, og nauðsyn þess að nýta upplýsingatæknina til að styðja við búsetu í landinu öllu og sporna sem mest og frekast má verða gegn byggðaröskun.

Eins og ég sagði áðan eru í frv. ýmsar veigamiklar breytingar frá gildandi lögum. Þeim má skipta í tvo hluta. Annars vegar ákvæði sem ætlað er að örva samkeppni og hins vegar ákvæði sem tryggja aðgengi allra landsmanna að fjarskiptaþjónustunni. Það að tryggja aðgengi landsmanna að gagnaflutningsþjónustu, þar á meðal að internetinu, er að mínu mati forsenda þess að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um byggðamál nái fram að ganga. Almenn samskipti einstaklinga og fyrirtækja, netið, fjarkennsla, fjarlækningar, fjarvinnsla og fjarfundir hafa mikla þýðingu fyrir velferð okkar og hagsæld. Aðgangur alls þorra landsmanna að gagnaflutningsþjónustunni getur því ráðið úrslitum um búsetu, atvinnuuppbyggingu og lífskjör í landinu til lengri tíma litið.

Til þess að tryggja aðgengi allra að fjarskiptaþjónustu er lögð til sú grundvallarbreyting að gagnaflutningsþjónusta með 128 kílóbæta flutningsgetu, þ.e. ígildi ISDN-þjónustu, verði skilgreind sem hluti af alþjónustu. Það þýðir að allir notendur eigi rétt á þjónustunni á viðráðanlegu verði án tillits til búsetu. Í dag er það fyrst og fremst hin almenna talsímaþjónusta sem fellur þar undir.

Ýmsum ákvæðum frv. er ætlað að örva samkeppni. Í því sambandi vil ég einkum benda á fimm atriði sem eru jafnframt nýmæli.

Í fyrsta lagi er tryggt að notendur síma geti haldið símanúmeri sínu án tillits til þess hjá hvaða símafyrirtæki þeir eru með viðskipti sín. Þetta er kallað númeraflutningur í löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Númeraflutningur er nú almennt talin forsenda fyrir raunverulegri samkeppni í símaþjónustu.

Í öðru lagi er tryggður hagkvæmur aðgangur farsímafyrirtækja að farsímanetum hvers annars þegar uppbygging eigin aðstöðu er talin óraunhæf. Dæmi um það er ef umhverfis- eða skipulagsmál eru hindrun fyrir frekari uppbyggingu farsímanets. Nágrannaþjóðir okkar, Danir og Norðmenn, hafa þegar lögbundið samsvarandi aðgangsrétt fjarskiptafyrirtækja í farsímaþjónustu. Lagt er til að þessi aðgangsréttur farsímafyrirtækja taki gildi 1. janúar 2001.

Í þriðja lagi er frv. ætlað að örva samkeppni á hinum almenna notendamarkaði með því að aðgangur nýrra fjarskiptafyrirtækja að heimtaug er tryggður. Eins og menn vita er aðeins eitt fjarskiptanet til í landinu sem nær heim til allra notenda. Þar af leiðandi þyrftu ný fjarskiptafyrirtæki að fjárfesta verulega í eigin netum ætli þau að ná til notenda almennt. Þessi vandi hefur leitt til þess að OECD leggur áherslu á að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild veiti nýjum fyrirtækjum aðgang að heimtaugum. Jafnframt er ljóst að slíkur aðgangsréttur kann að verða hluti af löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins fyrr en síðar. Erkki Likanen, framkvæmdastjóri fjarskipta- og upplýsingamála hjá framkvæmdastjórn EBS, lýsti því yfir á Telecom-ráðstefnunni, sem ég sótti í Genf í sl. mánuði, að hann fagnaði mjög því að ýmis aðildarríki hefðu lögfest skyldu markaðsráðandi fyrirtækja til að veita öðrum aðgang að heimtaugum. Aðgangur að heimtaug er orðinn hluti af löggjöf í Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Austurríki og Þýskalandi. Ljóst er að fleiri ríki munu leiða þetta í lög á næstunni.

Í fjórða lagi vil ég nefna að dregið er úr afskiptum hins opinbera af fjarskiptafyrirtækjum og einstaklingum og fyrirtækjum auðvelduð leið inn á markaðinn. Meginreglan verður sú að ekki þarf sérstakt leyfi til að starfrækja fjarskiptafyrirtæki en skráning látin nægja. Þó mun áfram þurfa rekstrarleyfi til starfsrækslu talsímaþjónustu, farsímaþjónustu og fjarskiptanets.

Í fimmta lagi eru ítarleg ákvæði um opinn aðgang að fjarskiptanetum og samtengingu fjarskiptaneta. Tilgangur þeirra er fyrst og fremst sá að tryggja að fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild geti ekki útilokað önnur fyrirtæki frá markaðnum vegna þeirrar sérstöðu fjarskipta að eitt fyrirtæki á allt dreifikerfið, fjarskiptanetið sjálft, er mikil áhersla lögð á reglur sem tryggja eiga aðgang nýrra fyrirtækja að netinu og reglur sem kveða á um rétt og skyldu fjarskiptafyrirtækis til þess að tengja net sitt fjarskiptaneti annarra fyrirtækja. Póst- og fjarskiptastofnun verður að gegna lykilhlutverki við framkvæmd þeirra.

Þá má nefna að frestir til meðferðar og afgreiðslu klögumála eru styttir verulega. Það mun væntanlega leiða til þess að minni hætta er á því að miklir hagsmunir fyrirtækja og almennings fari í súginn vegna tafa í stjórnsýslunni.

Í frv. er ekki tekin afstaða til eignarhalds á því fjarskiptaneti sem byggt hefur verið upp í landinu af Landssíma Íslands hf. Hins vegar er krafan um að alþjónusta feli í sér þá skyldu að símafyrirtækin bjóði tiltekna lágmarksflutningsgetu, jafnframt krafa um stóraukna flutningsgetu í kerfinu um landið allt. Í umræðu um skipulag fjarskiptamarkaðarins og stöðu Landssíma Íslands kemur oft upp spurningin um hvort skynsamlegt sé að skilja það sem í daglegu tali er nefnt grunnnet frá annarri starfsemi fyrirtækisins og fela sérstakri ríkisstofnun rekstur þess nets. Hvati umræðunnar er þá oftast sá að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið tryggi jafnræði með fyrirtækjum sem veita fjarskiptaþjónustu og að þjónustan sé tiltæk og á ásættanlegu verði um landið allt.

Þessi umræða er ekki ný og hefur farið fram við hliðstæðar breytingar í flestum öðrum Evrópulöndum. Þar hafði Evrópusambandið frumkvæði að stefnumótun sem fólst í því að brjóta ekki upp rekstur gömlu símafyrirtækjanna heldur skylda þau til að opna netin fyrir þjónustu keppinauta á kostnaðarverði með hóflegri álagningu. Þannig töldu Evrópuríkin að forðast mætti offjárfestingu í dreifikerfum, flýta fyrir samkeppni og tryggja uppbyggingu fjarskiptanetanna þar sem saman færi ábyrgð á uppbyggingu og þjónustu. Sérstök ráðgjafarnefnd sem samgrh. skipaði á síðasta kjörtímabili til að gaumgæfa stöðu Landssímans og fjarskiptakerfisins hér á landi komst að sömu niðurstöðu. Þessi niðurstaða er skynsamleg enda augljóst þegar að er gáð að ábyrgð á uppbyggingu og viðhaldi fjarskiptanetsins um allt land er þeim mun meiri þegar sami aðili þarf að svara kröfum viðskiptamanna um verð og gæði fjarskiptaþjónustunnar. Hann getur þá aldrei vísað á annan til afsökunar á því að þjónustan er ekki ásættanleg. Ef Landssíminn væri leystur undan rekstri á grunnnetinu út um land er einnig augljóst að fyrirtækið kynni að fara að fordæmi annarra sem bjóða fjarskiptaþjónustu og byggja upp eigin fjarskiptanet á ábatasömustu markaðssvæðunum í mesta þéttbýlinu en ríkið sæti þá eitt uppi með þjónustu út um landsbyggðina. Við þær aðstæður væri veruleg hætta á að ekki væru tryggðar sömu tæknilegu framfarir eða þjónusta og á höfuðborgarsvæðinu. Í því samhengi má minna á stöðu Rariks á raforkumarkaði og vanda fyrirtækisins með dreifikerfið í sveitunum.

Í gildandi fjarskiptalögum var ákveðið að símafyrirtækjum beri að veita talsímaþjónustu á sama verði um allt land. Þetta var mikil breyting og Ísland varð þá fyrst landa til að taka upp svo stórt samfellt gjaldsvæði. Kostnaður við flutning rafrænna gagna var þó eftir sem áður afar mismunandi eftir fjarlægðum og það takmarkaði mjög nútímaatvinnurekstur og þjónustu sem byggði á fjarskiptum úti um land.

Á síðustu mánuðum hefur þó orðið gerbreyting í þessu efni samfara því að kröfur gildandi laga um að verðskrá skyldi grundvallast á raunkostnaði komst til framkvæmda. Jafnframt hefur Landssíminn byggt upp ný gagnaflutningskerfi sem bjóða upp á aukin afköst og lægra verð og hafa þannig lagt fjárhagslegan grundvöll að uppbyggingu fjarvinnslufyrirtækja út um allt land. Þetta er fagnaðarefni sem sýnir betur en margt annað hversu mikilvægt er að halda ábyrgð á uppbyggingu fjarskiptakerfanna og þjónustunnar á sömu hendi.

Þessar nýjungar í flutningskerfinu eru þó að mestu bundnar við þéttbýlisstaði úti um land svo að enn vantar mikið á að hinum dreifðu byggðum sé tryggð ásættanleg þjónusta í gagnaflutningi. Í þessu frv. er eins og ég gat um áðan miðað við að stíga stórt skref til að bæta þar úr þar sem ákveðið er að fella gagnaflutningsþjónustu undir alþjónustukvöð og tryggja þannig að allir eigi kost á svonefndri ISDN-þjónustu eða sambærilegum flutningshraða. Enn liggur ekki fyrir hversu mikilla fjárfestinga er þörf í flutningskerfinu til að ná þessum áfanga en þar er þó fyrirsjáanlega um verulegar fjárfestingar að ræða.

Hvað varðar spurninguna um að ríkið eigi og reki grunnkerfi í landinu er vert að vekja athygli á því að ekkert þeirra ríkja innan Evrópu, sem hefur verið að einkavæða símafyrirtæki, gerir ráð fyrir að skilja grunnkerfið frá þjónustunni, hvorki þannig að ríkið eigi það og reki né þannig að um það sé stofnað sérstakt hlutafélag í eigu óskyldra aðila og ótengt þjónustufyrirtækinu. Það er ljóst að öflug, góð og hagkvæm fjarskipti munu skipta okkur, einstaklinga, fyrirtæki og þjóðina alla miklu máli í framtíðinni. Það á ekki síst við um Ísland og íslenska þjóð. Okkur ber skylda til að hafa í huga að við búum eyland sem er fjarri öðrum löndum en getum með öflugum fjarskiptum ávallt verið í miðri rás atburðanna. Um leið ber okkur að muna að við erum þjóð sem býr í stóru landi og mæta þarf þörfum allrar þjóðarinnar óháð því hvar menn kjósa sér að búa. Fjarskiptin leggja upplýsingaþjóðfélaginu til sjálft vegakerfið. Breytingarnar eru gífurlegar og það er því von mín að ný fjarskiptalög varði veginn til betri lífskjara.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgn.