Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:06:15 (1264)

1999-11-11 12:06:15# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, JB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um fjarskipti. Með því á að mæta hinni öru þróun tímans í tækniframförum, framförum í fjarskiptum og fjarskiptamöguleikum. Frv. opnar fyrir frekari þróun á þeim sviðum og um það er margt gott að segja.

Mér finnst mjög gott að stefnt skuli að því að opna aðgengi að fjarskiptanetinu þannig að þeir sem uppfylli þær reglur sem settar eru geti fengið aðgang, að sú fjárfesting og það sem þar er lagt í nýtist sem best.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. samgrh. um eru skilgreiningar. Verði það að lögum sem hér er lagt til getur þessi starfsemi að hluta farið á markað, þ.e. fyrir liggja hugmyndir að sölu Landssímans. Hins vegar liggur ekki fyrir frv. að lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, um eignastöðu hennar eða hver muni í raun eiga dreifikerfið. Það er órætt.

Á bls. 2 eru orðaskýringar og skilgreiningar. Starfsleyfin hljóta að byggjast á þeim kröfum um þjónustustig og römmum sem þjónustunni verða settir. Þá er stóra spurningin: Treystir hæstv. ráðherra sér til að skilgreina alþjónustu sem fyrirtækin eiga að geta haft aðgang að án sérstakra takmarkana? Treystir hann sér til að skilgreina almenna heimild þannig að hún leggi þá kvöð á fjarskiptafyrirtækin að þjónusta þeirra nái til allra landsmanna, fram til dala og út til stranda og einnig til flotans á miðunum í kringum landið? Þetta finnst mér aðalatriðið. Hvaða kröfur treystir hann sér til gera til þeirra sem hann veitir leyfi til þessara viðskipta?