Fjarskipti

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 12:33:02 (1271)

1999-11-11 12:33:02# 125. lþ. 23.6 fundur 122. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 107/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fróðlegt væri að vita hvaða hagsmunir það hefðu verið sem hv. þm. telur að samgrh. hefði átt að fórna hjá Landssíma Íslands í þágu samkeppninnar. Ég hef ekki heyrt nokkur einustu rök eða neinar skýringar á því hvar samgrh. hafi gengið of langt til að tryggja hagsmuni Landssímans á kostnað annarra samkeppnisaðila.

Ég geri þá kröfu til hv. þm. að þeir skýri þetta betur út þegar þeir koma með slíkar fullyrðingar. Krafan sem þingmenn Samfylkingarinnar voru uppi með var m.a. að Landssíminn yrði brotinn upp í einingar. Það var mitt mat að verða ekki við þeim óskum vegna þess að ég taldi það vera í þágu Landssímans og í þágu eigenda Landssímans og um leið neytenda þessarar þjónustu að fyrirtækið væri öflugt og sterkt á markaði vegna þess að það er að fara inn í samkeppni, ekki við lítil íslensk símafyrirtæki væntanlega, heldur í alþjóðlega samkeppni þar sem stór og öflug símafyrirtæki munu hafa mikið að segja og hafa það í rauninni nú þegar. Ég vísa þessu því algerlega á bug. Hins vegar mun væntanlega bráðum koma betri tíð með blóm í haga þegar Landssíminn hefur verið seldur og hv. þm. Samfylkingarinnar sem styðja væntanlega þá aðgerð þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að samgrh. hafi of mikið um það að segja sem snýr að Landssímanum sem fyrirtæki.