Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:40:19 (1280)

1999-11-11 13:40:19# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu utan dagskrár. Ég mun leitast við að svara þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín. Ég þakka honum fyrir að hafa sent mér þær áður þannig að mér gafst tækifæri til þess að undirbúa svörin.

Áður en spurningunum er svarað er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvernig orka er afhent og hvaða orku er verið að selja. Máli skiptir að gera sér grein fyrir því hvernig gjaldskrá Landsvirkjunar er upp byggð. Gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsveitna er þannig upp byggð að rafmagn er selt annars vegar sem forgangsrafmagn og hins vegar sem ótryggt rafmagn. Fjárfest er í orkuvirkjunum til þess að geta staðið við skuldbindingar um afhendingu á forgangsrafmagni. Þó að í verstu vatnsárum sé, hafi menn gert samninga um forgangsorku, er í öllum tilfellum reynt að standa undir slíku og það hefur ávallt tekist.

Ótryggt rafmagn er hins vegar framleitt sem aukageta, með því vatni sem umfram er í lónum eða ám flest ár. Hins vegar er ekki fjárfest sérstaklega í þeim mannvirkjum til að framleiða ótrygga rafmagnið. Raforkukerfi Landsvirkjunar annar öllum þörfum viðskiptavina sinna fyrir forgangsorku. Þess vegna er fjarri lagi að halda því fram að orkuskortur sé í landinu. Horfur á komandi vetri eru góðar varðandi forgangsorkuna. Staðan og horfur í vatnsbúskapnum eru þó engu að síður þannig að það dregur úr framboði á ótryggu rafmagni.

Margir hafa í rekstri fyrirtækja sinna á undanförnum árum treyst á að ótrygg orka yrði til staðar vegna þess að hún er ódýr. Þetta var hægt á meðan við bjuggum við mjög mikla umframfjárfestingu í orkukerfinu, t.d. Blönduvirkjun sem við vorum í mörg ár með algjörlega ónotaða. Verðmunur á forgangsorku og ótryggu rafmagni er verulegur. Það á sér þá skýringu að afhendingaröryggi þessara tveggja þátta er mjög ólíkt. Á síðasta ári var meðalverð forgangsorku frá Landsvirkjun 3,14 kr. hver kwst. en til samanburðar er ótryggt rafmagn nú selt, við venjulegar aðstæður, á 73 aura hver kwst. Ef það eru réttar tölur hjá hv. þm. hér áðan, að til stóriðnaðar væri verðið 99 aurar, þá er ótrygga rafmagnið ódýrara.

Munurinn á þessu er meira en fjórfaldur. Í gjaldskrá Landsvirkjunar eru þrjú verðþrep fyrir ótryggt rafmagn og er verð hækkað þegar svo ber undir til þess að draga úr eftirspurn. Einnig er heimilt að hætta afhendingu ef hækkanir duga ekki til þess.

Kem ég þá að spurningum hv. þm. Fyrst varðandi horfur í orkubúskapnum í vetur. Með þrepahækkun samkvæmt gjaldskrá Landsdvirkjunar sl. vetur og takmörkunum á afhendingu dró úr sölu Landsvirkjunar á ótryggu rafmagni sem nemur 95 gwst. Það er fjórðungur af heildarnotkun á ótryggu rafmagni fyrir árið. Horfur í vetur benda til að ekki þurfi að draga úr sölu á ótryggu rafmagni nema sem nemur um 50 gwst., sem er helmingur af því sem gert var síðasta vetur. Ef þróunin verður óhagstæð getur komið til enn frekari samdráttar en síðasta vetur. Af þessum ástæðum hefur Landsvirkjun takmarkað afhendingu á forgangsorku til stóriðju frá 1. sept. og hækkað verð á rafmagni um eitt þrep í gjaldskránni til almenningsveitna.

Af framansögðu má glöggt sjá að ástandið í orkubúskapnum er ekki óeðlilegt. Vegna hás olíuverðs hefur þrepahækkunin enn ekki --- og ég undirstrika það --- leitt til minnkandi eftirspurnar eftir ótryggu rafmagni. Iðnfyrirtæki hafa því almennt ekki hætt notkun raforku sem orkugjafa.

Varðandi svar við annarri spurningu hv. þm., hvort ég hafi yfirlit yfir þau iðnfyrirtæki sem hætt hafa eða eru í þann mund að hætta þá er því til að svara að svo er ekki.

[13:45]

Í þriðja lagi spyr hv. þm. um þróun verðlagningar orku til iðnfyrirtækja síðustu mánuði. Iðnfyrirtæki að stóriðju undanskilinni kaupa orku samkvæmt gjaldskrá rafveitna. Gjaldskrá rafveitna taka almennt mið af gjaldskrá Landsvirkjunar. 1. júlí sl. tók gildi 3% hækkun á gjaldskrá Landsvirkjunar. Ef sérstaklega er litið á ótrygga rafmagnið þá hækkaði verðið frá Landsvirkjun til almenningsveitna í þágu iðnfyrirtækja úr 73,3 aurum í 109,9 aura á kwst. þann 1. september sl. Verðið gæti hækkað í 1,80 kr. ef verður af hækkunum í þriðja þrep síðar í þessum mánuði.

Ég á eftir að svara einni spurningu hv. þm. en ég verð að fá að gera það í síðari umferðinni.