Horfur í orkuframleiðslu í vetur

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 13:54:27 (1285)

1999-11-11 13:54:27# 125. lþ. 23.93 fundur 133#B horfur í orkuframleiðslu í vetur# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta er ágætis umræða. Hæstv. ráðherra segir að hér sé ekki orkuskortur. Hv. málshefjandi talar um að hér séu iðngreinar sem farnar eru að sækja í innflutta orku og jafnvel mengandi orku vegna þess að innlend orka er svo dýr. Hvað segir þetta okkur? Segir þetta okkur ekki það að við höfum ekki lengur efni á að selja orkuna til stóriðjunnar svona ódýrt? Segir þetta okkur ekki það að við eigum að fara aðrar leiðir, við eigum að hækka orkuna í framtíðinni til stóriðjunnar og bjóða innlendu orkufyrirtækjunum, þ.e. smáiðnaðarfyrirtækjunum, fiskvinnslunni, garðyrkjunni og öðrum smáfyrirtækjum orkuna á aðeins lægra verði?

Samkvæmt mínum upplýsingum er stóriðjan að greiða 88 aura fyrir kwst. og það er þessi trygga orka. Aftur á móti eru smáfyrirtækin, iðngreinarnar, að greiða um 5 kr. fyrir kwst. Við sjáum að þarna er geysilega mikill munur á ferðinni og auðvitað eigum við að koma í veg fyrir að þessi smærri innlendu fyrirtæki gefist upp á því að nota innlenda orku og fari að nota aðkeypta orku. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta ekki það sem við þurfum að gera? Er ríkisstjórnin tilbúin að koma til móts við þessi fyrirtæki og lækka til þeirra tryggu orkuna þannig að þau neyðist ekki til að fara út í aðrar leiðir til að sjá fyrir þeirri orku sem þau þurfa á að halda?