Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999, kl. 16:57:01 (1324)

1999-11-11 16:57:01# 125. lþ. 23.9 fundur 147. mál: #A happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., 148. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í þessa umræðu. Ég reikna reyndar með að þetta mál komi til hv. allshn. þar sem ég gegni formennsku. Þar situr hv. þm., 1. flm. þessa máls.

Þetta er mál sem við þekkjum hér á hv. Alþingi og höfum fjallað um áður. Almennt vil ég halda því fram að happdrætti sé til að auka tilbreytni í mannlífinu og að því leyti sé það skemmtileg dægradvöl. Það hefur verið gífurleg þróun á happdrættismarkaðnum á undanförnum árum, ekki bara hér heldur almennt í heiminum og ekki síst á hinum Norðurlöndunum líka. Síðan árið 1993 hefur Happdrætti Háskólans verið með þessar tæknivæddu spilavélar sem orka tvímælis, ég get tekið undir það, og er aðalumræðuefnið hér.

Ég vil minna á að hægt er að stunda þessa starfsemi t.d. á internetinu. Það er því ekki einfalt að banna þetta hér á landi. Við ráðum ekki við málið í heild sinni.

En í sambandi við t.d. hin Norðurlöndin sem ég nefndi aðeins áðan þá er happdrættisstarfsemi, eftir því sem ég best veit, að verulegu leyti rekin af ríkinu. Þar hafa mál þróast á svipaðan hátt og hér. Til dæmis eru happdrættisvélar í Svíþjóð reknar af ríkinu. Þar er rekið mikilvægt happdrættisvélakerfi sjö þúsund véla, svipað happdrættisform er í Noregi og Finnlandi. Í Danmörku er t.d. leyfð starfsemi sérstakra spilasala. Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu.

[17:00]

Eins og hér hefur komið fram hefur happdrætti verið notað til að afla fjár til uppbyggingar á þjóðþrifastarfsemi. Þannig hefur Happdrætti SÍBS byggt upp endurhæfingarstarfsemi, Happdrætti DAS öldrunarstarfsemi og Rauði krossinn, SÁÁ og björgunarsamtök fengið leyfi til að afla fjár til starfsemi sinnar með söfnunarkössum. Málið sem hér er til umfjöllunar snýr því að veigamiklum þáttum í þjóðlífinu. Náttúrlega yrði að kosta þessa starfsemi á annan hátt ef þær tillögur yrðu samþykktar sem hér eru. Um það snýst þetta mál og þarf náttúrlega að fara í mikla vinnu til þess að finna þá framtíðarlausn.

Ég vil að hér komi fram að hæstv. dómsmrh. gerir sér grein fyrir því að þessi starfsemi þarfnast stöðugrar umfjöllunar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi það áðan að fyrrv. hæstv. dómsmrh. hefði haft að engu ályktun sem gerð var á hv. Alþingi þegar málum var vísað til ríkisstjórnarinnar. Þau mál voru svipuð og þeim sem hér eru til umfjöllunar. Af því tilefni vil ég að fram komi að sú nefnd, sem skipuð var af fyrrv. hæstv. dómsmrh., skilaði tillögum og frumhugmyndum. Þær hugmyndir eru til umfjöllunar í dómsmrn. Hæstv. dómsmrh. hefur hugsað sér að um þær verði fjallað áfram og farið yfir málið.

Eins vil ég taka fram að ég hyggst beita mér fyrir því sem starfandi formaður í allshn. að farið verði yfir þetta mál aftur. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi mál valda miklum vandræðum í samfélaginu, miklum erfiðleikum inni á heimilum og fjölskyldutragedíum, má segja. Við getum ekki horft fram hjá því. Eins og hv. þingmenn vita eflaust hefur SÁÁ boðið upp á þjónustu við þá sem verst verða úti í þessum málum og meðferð, sem er nú kannski ákveðinn tvískinnungur.

Nefndin mun fjalla um þetta mál og svo verðum að sjá til um niðurstöðuna.