Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:16:18 (1442)

1999-11-16 12:16:18# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Málið sem við tökum nú til vinnslu er um margt flókið og vandmeðfarið. Með því að taka þetta mál á dagskrá eins og hér er gert gefst þingmönnum enn á ný tækifæri til að gera upp hug sinn til Fljótsdalsvirkjunar. Við ákvörðunina munu margir þættir togast á í hugum þingmanna, ítarleg gögn munu þó auðvelda ákvarðanatökuna, t.d. þau sem hv. þm. hafa fengið um umhverfisrannsóknir vegna Fljótsdalsvirkjunar. Ekki mun ég gera þær rannsóknir að sérstöku umtalsefni hér í knöppu formi heldur fara nokkrum orðum yfir samspil Fljótsdalsvirkjunar við lög um mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

Frv. til laga um umhverfismat var lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi af þáv. umhvrh. og tók frv. miklum breytingum í meðförum þingsins. M.a. kom inn ákvæði til bráðabirgða II samkvæmt tillögu umhvn. og heiti laganna var breytt í lög um mat á umhverfisáhrifum. Ákvæði til bráðabirgða II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, mælir fyrir um undanþágu frá þeirri skyldu sem kemur fram í 5. gr. laganna um hvaða framkvæmdir beri að setja í mat á umhverfisáhrifum, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.``

Í fyrrgreindu ákvæði til bráðabirgða II felst í fyrsta lagi árétting á þeirri rótgrónu lögskýringarreglu að lögum verður ekki beitt á afturvirkt nema þau sjálf mæli svo, enda sé slíkt ákvæði þegnunum óhagstætt. Viðhorfið felur í sér að í vafatilvikum mundi lögum ekki verða beitt á afturvirkt. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er hvergi kveðið á um að þau skuli vera afturvirk. Þvert á móti er áréttað með ofangreindu ákvæði til bráðabirgða II að lögin séu það ekki.

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, er ekki kveðið á um hvers konar leyfi veiti undanþágu frá því að framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II og það sem áður segir um framkvæmdir sem leyfi höfðu fyrir gildistöku laganna um mat á umhverfisáhrifum. Enginn vafi er á að það sé á valdsviði umhvrh. eða dómstóla eftir atvikum að skera úr um hvort leyfi í skilningi bráðabirgðaákvæðis II sé fyrir hendi eður ei. Um þetta hafa fallið dómar svo sem dómur Evrópudómstólsins í máli nr. 781/1996.

Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, markast miðhálendi Íslands af línu sem mótuð var við gerð svæðisskipulags miðhálendisins af sérstakri samvinnunefnd sem skipuð var samkvæmt heimild í bráðabirgðaákvæði samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1993. Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins skilaði tillögum til Skipulagsstofnunar þann 23. nóv. 1998. Í tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins er gert ráð fyrir fyrirhuguðu Eyjabakkalóni og segir í greinargerð með svæðisskipulagstillögunni að Fljótsdalsvirkjun sé heimiluð með lögum frá árinu 1981 og leyfi ráðherra hafi verið veitt fyrir virkjuninni fyrir 1. maí 1994. Virkjunin sé því einungis matsskyld ef um breytingar sé að ræða frá upphaflegum áætlunum.

Í greinargerð Skipulagsstofnunar sem fylgdi með tillögu til ráðherra um að hann staðfesti tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands er tekið fram að allar virkjanir sem tilgreindar eru í tillögu samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins séu háðar mati á umhverfisáhrifum ,,utan virkjunar Jökulsár á Fljótsdal, sem hefur lagaheimild og virkjanaleyfi, útgefið fyrir gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum``.

Þann 10. maí 1999 staðfesti umhvrh. svæðisskipulag miðhálendis Íslands til 2015 og staðfesti þar með það álit samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands og Skipulagsstofnunar, að Fljótsdalsvirkjun sé heimiluð með lögum frá árinu 1980 og leyfi ráðherra hafi verið veitt fyrir virkjuninni fyrir 1. maí 1994. Virkjunin sé því einungis matsskyld ef um breytingar sé að ræða frá upphaflegum áætlunum og það er afar brýnt, herra forseti, að þingheimur átti sig á þessu.

Með skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, voru felld úr gildi eldri skipulagslög, nr. 19/1964, og byggingarlög, nr. 54/1978. Í 9. gr. laganna segir:

,,Landið allt er skipulagsskylt. Bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir.``

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga segir:

,,Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.``

2. mgr. 43. gr. er svohljóðandi:

,,Framkvæmdir skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.``

Í 2. mgr. 36. gr. er kveðið á um undanþágur frá ákvæðum um byggingarleyfi:

,,Undanþegin byggingarleyfi eru götur, holræsi, vegir og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, svo og hafnir og virkjanir, enda eru þær framkvæmdar á vegum opinberra aðila eða unnar samkvæmt sérlögum. Byggingarleyfi þarf þó fyrir varanlegum húsbyggingum sem gerðar eru í tengslum við þessar framkvæmdir.``

Skv. 2. tölulið ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga skulu öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag að liðnum tíu árum frá gildistöku laganna eða 1. jan. árið 2008. Aðalskipulag Fljótsdalshrepps liggur ekki fyrir en þegar framkvæmdir hófust við Fljótsdalsvirkjun árið 1991 giltu lög nr. 19/1964, sem eins og áður sagði kváðu einungis á um skyldu til að skipuleggja byggðan hluta sveitarfélags. Í 2. mgr. 5. gr. skipulagslaganna, nr. 19/1964, sagði að ef ekki væri fyrirliggjandi staðfestur skipulagsuppdráttur af sveitarfélagi eða hluta þess gat sveitarstjórn að fengnum meðmælum skipulagsstjórnar leyft einstakar byggingarframkvæmdir. 3. tölul. í ákvæði til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum byggir á 2. mgr. 5. gr. eldri skipulagslaga en 3. töluliður ákvæðis til bráðabirgða í núgildandi skipulags- og byggingarlögum hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn getur án þess að fyrir liggi staðfest aðalskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt og er unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum. Heimilt er að vísa niðurstöðu Skipulagsstofnunar varðandi slíkt erindi til úrskurðarnefndar, sbr. 8. gr.``

Eins og fram kemur í þáltill. hæstv. iðnrh. sótti Landsvirkjun þann 14. nóv. 1990 um leyfi til hreppsnefndar Fljótsdalshrepps í samráði við Skipulag ríkisins og óskaði eftir að hreppsnefndin leyfði byggingu Fljótsdalsvirkjunar í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skipulagslaganna. Sveitarstjórn frestaði að taka afstöðu til þessarar beiðni. Landsvirkjun ítrekaði beiðnina um leyfi til Fljótsdalsvirkjunar á grundvelli 2. mgr. 5. gr. þágildandi skipulagslaga árið 1992. Sveitarstjórn hefur enn ekki tekið endanlega afstöðu til málsins og liggur því fyrrgreind umsókn hjá hreppsnefnd Fljótsdalshrepps og bíður afgreiðslu. Samkvæmt heimildum ráðuneytisins mun Landsvirkjun ætla að ítreka fyrrgreinda umsókn varðandi virkjunina til hreppsnefndar Fljótsdalshrepps með vísun til 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í núgildandi skipulags- og byggingarlögum.

Skipulagsstofnun hefur nú þegar, samanber greinargerð stofnunarinnar við tillögu til ráðherra um staðfestingu svæðisskipulags miðhálendis Íslands, tekið fram að Fljótsdalsvirkjun sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hins vegar er ljóst að byggingarleyfi þarf vegna húsbygginga sem tengjast munu virkjuninni. Aðalskipulag fyrir Fljótsdalshrepp liggur ekki fyrir en verið er að vinna að svæðisskipulagi héraðssvæðis sem mun ná yfir Norður-Hérað, Fellahrepp, Fljótsdalshrepp, Austur-Hérað og Borgarfjörð eystri, neðan markalínu svæðisskipulags miðhálendisins. Áætlað er að skipulagsvinnunni verði lokið um mitt árið 2000. Ráðuneytið hefur fengið þær upplýsingar að hafin sé vinna við gerð deiliskipulags fyrir þann hluta Fljótsdalshrepps þar sem sem húsbyggingar tengdar virkjuninni munu staðsettar.

Virðulegur forseti. Almennt má segja að mat á umhverfisáhrifum feli í sér mat á áhrifum framkvæmda á náttúru og samfélag manna. Því er nauðsynlegt að meta í heild áhrif framkvæmda og vega og meta kosti og galla. Þetta er afar flókið og mun örugglega reyna verulega á þolrif allra þingmanna. Segja má að gallinn við Fljótsdalsvirkjun sé sá að umhverfisáhrif, þ.e. áhrif á náttúrufarsþætti séu greinileg. Sérstakt búsvæði dýra og plantna sem menn nota m.a. til útivistar fer undir vatn.

Kostirnir við framkvæmdina eru jákvæð umhverfisáhrif, þ.e. áhrif á efnahagslíf í landinu og á byggð á Austurlandi. Þessa kosti og galla verða hv. þm. að vega og meta hver fyrir sig. Hins vegar er alveg ljóst að Alþingi hefur nú þegar mótað stefnu sína, hefur leyft Fljótsdalsvirkjun án umhverfismats. Um það er ekki hægt að deila að mínu mati. En það er virðingarvert að við skulum samt taka þetta mál hér upp til umræðu, þar sem um það ríkja deilur í þjóðfélaginu. Núna geta því hv. þm. notað þann tíma sem þeir telja að þeir þurfi, bæði í iðnn. og umhvn., til að fara yfir meginþætti málsins og gera upp hug sinn enn á ný.