Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 12:31:32 (1445)

1999-11-16 12:31:32# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[12:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við getum farið yfir söguna í þessum málum við tækifæri. Það er alveg sjálfsagt að ræða hana. Ef það eru öflugustu rök talsmanna ríkisstjórnarinnar, sem mér heyrist reyndar vera, að sækja sér atburði aftur í söguna, 17--19 ár aftur í tímann, eins og síðan hafi ekkert gerst, þá dæmir sá málatilbúnaður sig sjálfur og þarf ekki að hafa um hann frekari orð.

Herra forseti. Það þarf ekki til sýndarmennskutillögu frá iðnrh. til þess að sniðganga umhvn. Til umfjöllunar í umhvn. er tillaga um prinsippákvörðunina í þessu máli, þ.e. hvort að virkjun í Fljótsdal eigi að fara í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum eða ekki. Sú tillaga er langt komin í vinnslu í þeirri nefnd. Ég sé ekki að neitt sé því til fyrirstöðu að taka hana þaðan og afgreiða hér. Það þarf ekki að þakka hæstv. iðnrh. fyrir að koma með þennan ótrúlega málflutning inn á þingið þegar fyrir hefur legið um margra vikna skeið tillaga sem eðlilegast er að Alþingi taki af skarið um. Að sjálfsögðu á að vinna þessi mál þar og grundvallarákvörðunin á að takast í því samhengi, hvort menn vilja að lögum og aðferðafræði eins og það stendur núna sé fylgt eða ekki.

Það sem mér fannst svakalegast í málflutningi hæstv. umhvrh. var að ekki virtist votta fyrir neinum efasemdum eða óánægju, ekki einu sinni eftirsjá eftir því af hálfu hæstv. umhvrh. að málin væru unnin samkvæmt lögum og aðferðafræði þess ráðuneytis sem hún á að heita í forsvari fyrir. Er það virkilega þannig að hæstv. umhvrh. lýðveldisins sjái ekkert að því að lögum um mat á umhverfisáhrifum sé ýtt til hliðar, að skipulagsstjóri og hans embætti sé hafður að engu, að umhvn. Alþingis sé lítilsvirt og í raun þingræðið og eðilegur framgangsmáti þar með? Af því að hæstv. ráðherra styður ríkisstjórnina, þá er það allt í lagi.