Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 14:34:20 (1471)

1999-11-16 14:34:20# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú eru fótgönguliðarnir farnir að fylgja í kjölfar ráðherranna með útúrsnúningana. Þeir vilja allir vera 10, 20, 30 ár aftur í tímanum. Þeir sem taka til máls af hálfu stjórnarliðsins neita algjörlega að ræða um þá ákvarðanatöku sem hér ætti að fara fram á Alþingi í ljósi núverandi aðstæðna, núverandi lagaumhverfis, núverandi þjóðréttarlegra skuldbindinga og núverandi viðhorfa.

Já, ég held því fram, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að mikil breyting hafi orðið á almennum viðhorfum til umhverfismála. Það má vel vera að hægt sé að finna skoðanakannanir til að sýna fram á að varðandi einstaka þætti liggi fyrir mælingar um að viðhorf, t.d. til álvera, hafi ekki breyst mjög mikið. En ég held að allir sem fylgst hafa með umfjöllun um þessi mál og allir sem búið hafa á Íslandi undanfarin ár, það hef ég gert en ég veit ekki með hv. þm., viti að mikil vakning hefur orðið. Sú vakning er ekki bara á Íslandi heldur almennt í heiminum. Umhverfismál eru sem betur fer loksins komin á dagskrá. Menn eru að gera fyrstu alvörutilraunir mannkynssögunnar til að ná tökum á þeim umhverfisvanda sem steðjar að mannkyninu. Ég veit að vísu að Framfl. hefur ekki frétt af því enn þá en ég geri mér þó vonir um að þau skilaboð komist einhvern tíma á leiðarenda þó taugaboðin berist greinilega hægt á þeim bæ.

Ég held, fyrst menn eru að vitna í skoðanakannanir, að við eigum líka að vitna í það sem er óhagstætt fyrir ríkisstjórnina. Ég tók að vísu eftir því hvernig hæstv. umhvrh. notaði skoðanakannanir hér áðan. Hún sleppti alveg að geta þess að endurteknar kannanir hafa sýnt að um 3/4 þjóðarinnar vilja að virkjun í Fljótsdal fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Eigum við þá ekki líka að taka mark á því sjónarmiði þjóðarinnar sem þannig birtist í skoðanakönnunum, herra forseti?