Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 16. nóvember 1999, kl. 17:17:26 (1523)

1999-11-16 17:17:26# 125. lþ. 26.3 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 125. lþ.

[17:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hagfræðingarnir sem ég vísaði í, Sigurður Jóhannesson, Þorsteinn Siglaugsson og Tryggvi Felixson --- ég er reyndar ekki alveg viss um að þeir séu allir hagfræðingar. Ég veit það ekki. En þeir eru fræðimenn á þessu sviði --- byggja á sömu forsendum og Landsvirkjun. Og ef það er rétt sem fram kom í máli hæstv. utanrrh., að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að meta þessar forsendur þá finnst mér við standa frammi fyrir miklu stærra og alvarlegra áhyggjuefni en ég hafði gert mér grein fyrir. Við erum að tala um fjárfestingar upp á tugi milljarða. Álverið eitt í heild sinni er upp á 120 milljarða kr. og Fljótsdalsvirkjun ein 30 milljarða. Og hverjir eiga að fjármagna þetta? Það eiga lífeyrissjóðirnir, innlendir fjárfestar, að gera.

Menn eru að taka slíka áhættu fyrir íslenskt atvinnulíf og framtíð íslensku þjóðarinnar að engin dæmi eru um slíkt. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að hann treysti sér ekki til að meta málið.