Beiðni um fundarhlé

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 13:51:37 (1614)

1999-11-17 13:51:37# 125. lþ. 27.93 fundur 156#B beiðni um fundarhlé# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[13:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina því til forseta þingsins, sitjandi forseta þingsins, að hann geri hlé á þingfundi og boði til fundar með formönnum þingflokka. Hér eru alvarlegir hlutir að gerast. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir og hæstv. iðnrh. eru að drepa málum á dreif, eru að gera lítið úr þáltill. sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs flutti á sínum tíma og hún er hér skýrð sýndartillaga og er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram mat samkvæmt lögum nr. 63/1993 á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, þrátt fyrir að virkjunarleyfi hafi verið veitt.``

Þetta er engin sýndartillaga, að baki henni búa rök og að baki henni búa landslög. Ef sitt hvað er þáltill. og annað frv. er sitt hvað frummatsrannsókn, annað umhverfismat. Ég ítreka beiðni mína til hæstv. forseta þingsins, sitjandi forseta þingsins, að gert verði hlé á þingfundi og formenn þingflokka boðaðir til fundar til að ræða þessi mál.