Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 14:34:22 (1627)

1999-11-17 14:34:22# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Því fer fjarri að ég trúi því að enginn vilji flytja til Austurlands. Mér finnst Austurland vera sérlega fallegt. Ég segi það fyrir mína parta að ég gæti vel hugsað mér að búa þar. Hvort einhver mundi flytja sérstaklega austur til þess að fá starf í álveri, það læt ég liggja milli hluta. Ég þekki það ekki. En væri ekki ráð að gera á þessu einhverja könnun eða athugun? Og um það snýst öll þessi umræða.

Hæstv. ráðherra kom í ræðustól áðan og sagði að menn ættu ekki að vera að draga lærdóma og ályktanir af þeim tölum sem lægju frammi, það væri ekki ástæða til að gera það nú. Það er einmitt nú sem á að gera það. Það er núna sem verið er að taka ákvörðun um þessa hluti. Það er núna sem við eigum að taka þessa umræðu. Okkar krafa hefur einfaldlega verið sú að gerðar verði kannanir og athuganir --- málið er af slíkri stærðargráðu --- ekki bara fyrir Austurland, ekki bara fyrir Austfirðinga heldur fyrir allt íslenska efnahagslífið.

Ég er sannfærður um að hér er verið að ráðast í mikið glæfraspil og það er alvarlegt af hve miklu ábyrgðarleysi hæstv. ráðherrar hafa talað um þetta mál. Hv. þm. Jón Kristjánsson var málefnalegur í andsvari sínu. Hann kom með efnisleg rök þótt ég sé ekki honum sammála. En við auglýsum eftir rökum og rökstuddum skoðunum í þessu máli.