Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 16:01:20 (1662)

1999-11-17 16:01:20# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Enn á ný verðum við vitni að því að fulltrúi ákveðins þingflokks viti allt betur en aðrir. Fulltrúar þessa þingflokks þekkja ekki aðeins lögin betur en allir aðrir og allir lögspekingar þessa lands og þó víðar væri leitað, heldur vissi hv. þm. líka á hvað þjóðin trúir. Þjóðin trúir að mati hv. þm. á lögformlegt umhverfismat. Rök voru færð fyrir því að skoðanakönnun sem kynnt var í fyrradag hefði verið blekkjandi og gefið í skyn að þeir sem svöruðu hefðu farið í þriðju gráðu yfirheyrslu um hvað fælist í lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Til þess að taka af allan vafa vil ég, með leyfi forseta, lesa spurninguna eins og hún var lögð fyrir þátttakendur í könnuninni. Spurningin hljóðar svo:

,,Telurðu að þú þekkir mikið, nokkuð, lítið eða ekkert til hvað felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum?``

Niðurstaðan er sú að 20% sem töldu sig vita mikið eða nokkuð um hvað fælist í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þess vegna er það afar merkilegt að hér skuli hv. þm. fullyrða að þjóðin trúi á lögformlegt umhverfismat.