Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:30:17 (1671)

1999-11-17 18:30:17# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:30]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Hv. þm. lætur að því liggja að Austfirðingar sitji með hendur í skauti og bíði eftir álveri og hefur miklar áhyggjur af því ef að það kæmi ekki. Þetta sýnir hvað hann á í miklum vandræðum með að útskýra byggðaþáttinn í þessu máli. Hann segir: ,,Ég hef áhyggjur af því að ferð Halldórs Ásgrímssonar á fund Sambands sveitarfélaga hafi verið dýr.`` Eiga menn ekki að segja frá því ef slíkar viðræður fara fram? Eiga menn aldrei að fara í neinar áhættusaman viðræður? Ég vil taka það fram og þess vegna kom ég upp í þetta andsvar, að það er gjörsamlega rangt að nokkurn tímann á nokkru stigi málsins hafi nokkru verið lofað í þessu máli. Það hefur aldrei á neinu stigi málsins verið sagt að málið sé í höfn. Enda er það ekki í höfn. Tvennt getur komið til, þ.e. að ekki semjist og að þeim sem berjast hatrammlega gegn þessu máli á öllum stigum samfélagsins takist að drepa málið. Það getur vissulega komið upp. Ég geri mér alveg grein fyrir því. Og mér þykir einkennilegur tvískinnungur að hamast hér við að reyna að drepa þetta mál og hafa svo stórar áhyggjur af því ef að það tækist.