Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 18:42:07 (1679)

1999-11-17 18:42:07# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[18:42]

Ólafur Örn Haraldsson:

Hæstv. forseti. Gamla nytjastefnan er gengin sér til húðar, nytjastefna sem fól í sér að allt væri falt, allt mætti taka, grafa mætti í hvern gíg og gjallhól, skilja eftir opnar námur, opin sár, keyra um ósnortið land, troða niður viðkvæma gróðurþekju, beita hvern blett, virkja hvern foss, henda sorpi og netadræsum í sjó, sökkva skipshræjum, ofveiða fiskstofna, menga loft og hleypa skolpi óhreinsuðu í opnar fjörur. Þessi skefjalausa og gagnrýnislausa nytjastefna skeytti engu og vissi raunar ekkert um framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í umhverfismálum. Hún vissi þaðan af síður um alþjóðlegt samhengi umhverfismála þar sem við Íslendingar erum háðari umhverfisvernd meira en flestir aðrir og dugir þar að minna á vaxandi mengun í norðurhöfum. Þessi sjálfhverfa nytjastefna krafðist alls, hrifsaði allt án þess að greiða nokkuð til náttúrunnar eða fegurðarinnar og allra síst til framtíðarinnar eða þeirra Íslendinga sem á eftir okkur koma. Við getum fyrirgefið forfeðrum okkar sem hvorki höfðu þekkingu né lágmarksefni til þess að hlífa náttúru landsins. En við sem búum við allsnægtir og víðtæka þekkingu getum ekki beðið komandi kynslóðir afsökunar, beðið þær að fyrirgefa okkur þegar við göngum á landið og misgjörum því og náttúru okkar án þess að skeyta um leikreglur sem við höfum sett okkur. En sem betur fer er þessi nytjastefna nú brátt að baki. Það eru breyttir og bjartari tímar. Það sem ég nefndi í upphafi verður fljótt að baki, þ.e. stöðugur ágangur á náttúruna án þess að nokkuð komi þar fyrir. Þessir breyttu og bjartari tímar hafa komið fram í gjörbreyttum viðhorfum almennings. Jafnvel nú á síðustu missirum hafa viðhorf almennings gjörbreyst. Þessir breyttu tímar hafa komið fram í gjörbreyttri löggjöf sem kemur fram í alþjóðlegu samstarfi og hagsmunum Íslendinga þar sem okkar hagsmunir og okkar sjónarmið hafa náð fram að ganga og við höfum eignast víðsýnni stjórnmálamenn.

[18:45]

Ég vil að það komi fram að ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili og því síðasta tekið þátt í þessum miklu breytingum af fullri alvöru með umfangsmikilli og vandaðri lagasetningu. Þar nægir að benda á byggingar- og skipulagslögin og síðan náttúruverndarlögin en þessir tveir lagabálkar eru mikilvægustu lagabálkar í náttúruvernd og umhverfismálum hér á landi. Þessir lagabálkar höfðu beðið þing eftir þing en aldrei náð í gegn. En þeir öðluðust gildi í tíð núv. og fyrrv. ríkisstjórnar. Sömuleiðis má nefna lögin um mengun og hollustuhætti, skipulag miðhálendisins og væntanlega endurskoðun laganna um mat á umhverfisáhrifum.

Auk þessa höfum við gert fjölda alþjóðlegra samninga um mengun hafsins. Baráttan við þrávirku lífrænu efnin stendur yfir núna og e.t.v. ná Íslendingar þar markverðum árangri. Þetta hefur tekist undir forustu Framsóknarflokksins og þó að fyrrv. hæstv. umhvrh. Guðmundur Bjarnason hafi legið hér undir mjög miklum og oft ómaklegum árásum þá urðu þessi tímamót í tíð hans í samræmi við breyttan tíðaranda og breytt viðhorf almennings. Við höfum því smám saman verið að vinna upp 10--20 ára forskot nágrannaþjóða okkar í umhverfismálum.

Inn í þessa gerbreyttu tíma og tiltölulega björtu framtíð dregur ríkisstjórnin núna forneskjulegt verklag með því að ætla að knýja fram virkjun án þess að farið sé að þeim leikreglum sem viðurkennd eru í hugum almennings og í allri löggjöf okkar. Ég viðurkenni þó að ríkisstjórnin hefur margt til síns máls og ýmis rök. Ríkisstjórnin hefur orðið að hörfa með þetta mál og rök þess inn á örlítinn reit, inn á örlítinn neyðarreit, þar sem hún verst öllum rökum, rökum sem lúta að lögum, rökum sem lúta að þjóðarvilja, rökum sem lúta að náttúruverndarsjónarmiðum og öðru sem þykir nú sjálfsagt.

Ég ætla ekki að gera hina drungalegu fortíð Fljótsdalsvirkjunar að umræðuefni, allt það karp um málsmeðferð og hvort hún eigi efnislegan eða lagalegan rétt á sér eða ekki. Það hafa fjölmargir þingmenn gert úr þessum ræðustól síðustu tvo daga og sótt að ríkisstjórninni með margvíslegum rökum, þó ég efist um árangur af því. Ég vil frekar beina sjónum mínum að hinu raunverulega umhverfismáli, þ.e. því að á Eyjabökkum og á öræfum norðaustan við Vatnajökul eru ómetanleg náttúruverðmæti. Þau fara forgörðum með því að ráðist verði í virkjanir á þessu svæði. Ég vil undirstrika það sem öllum er kunnugt, að Fljótsdalsvirkjun mun ekki duga fyrir framtíðaráform um álver, jafnvel þó það stækki ekki með þriðja áfanga. Þarna komum við að kjarna málsins. Hvað sem líður öllu karpi og togi um formsatriði lagasetningar sem ég vil alls ekki gera lítið úr þá stöndum við frammi fyrir náttúru landsins okkar, frammi fyrir gjörðum okkar og frammi fyrir komandi kynslóðum. Viljum við sökkva og spilla landi eins og fyrirhugað er með Fljótsdalsvirkjun án þess að fara að þessum leikreglum, eða viljum við hlífa því?

Við skiptumst hér í tvo hópa að þessu leyti og báðir hóparnir hafa vissulega nokkuð til síns máls. Hér er ekkert eitt fyllilega rétt eða fyllilega rangt. Annars vegar eru þeir sem vilja fórna Eyjabökkum vegna þeirra sjónarmiða sem sett hafa verið fram um byggð og efnahagslíf. Hins vegar segjum við ýmist: Við viljum alls ekki fórna þeim. Eða: Við viljum alls ekki að þeim verði fórnað nema farið sé að settum leikreglum um mat á umhverfisáhrifum. Ég er í síðari hópnum.

Mig langar að það komist a.m.k. í Alþingistíðindi hvaða náttúruverðmæti eru á Eyjabökkum þó að flestum hér í þessum sal sé kunnugt um það.

Í Jökulsá í Fljótsdal eru 15 fossar, þriggja til þrjátíu metra háir á 20 km kafla frá Eyjabökkum að Kleif í Fljótsdal. Þeir eru einstæðir og finnast jafnvel ekki þeirra líkar hér á landi. Verndargildi þeirra er mikið. Samfelld gróðurþekja er frá jökli til sjávar á þessu svæði sem á hvergi sinn líka að því leyti á Íslandi. Eyjabakkar liggja hærra yfir sjó en svipaðar gróðurvinjar við upptök jökuláa hérlendis, þ.e. í 650 m hæð. Í Lónsstað við Eyjabakka eru 30 ferkílómetrar gróins lands, þar af helmingur votlendi. Gróðurfar á Eyjabökkum er afar fjölbreytt. Þar skiptist á votlendi, þurrlendi, bergsvæðisgróður ásamt áreyrum og söndum. Slíkt land er ekki að finna á Íslandi annars staðar, nema þá í Þjórsárverum.

Hraukarnir hafa verið gerðir að umtalsefni hér og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði grein fyrir því að þeir væru jafnvel einstæðir í heiminum. Gróður á Eyjabökkum er sérstakur að því leyti að þar eru bæði hálendis- og láglendisplöntur.

Heiðagæsin verpir ekki mikið á Eyjabökkum, það er hárrétt, en hún fellir þar fjaðrir og fjaðrafellistaðurinn er takmörkuð auðlind, ef við getum orðað svo, fyrir heiðagæsina. Við berum þar ábyrgð, ekki aðeins gagnvart þessum dýrastofni, sjálfum okkur og landinu okkar, heldur gagnvart Evrópu og í samhengi heimskautasvæðanna. Við ætlumst til þess að aðrir virði rétt okkar, hafsvæði okkar og hagsmuni en ætlum að skella skollaeyrum við þeirri ábyrgð sem við berum sjálf.

Hreindýrastofninn á mikið undir Eyjabökkunum og þar halda til um 20% stofnsins eftir því sem næst verður komist. Þá er ótalið að Eyjabakkar eru ekki aðeins sá örlitli blettur sem þeir eru heldur hluti af landslagsheild, heildstæðri fegurð sem er samstæð og byggir á því að litlu eða engu sé þar raskað. Það má ekki horfa, eins og gert er víða í skýrslunni, eingöngu á blettinn Eyjabakka heldur á að skoða þetta í heild sinni. Komi maður á Eyjabakkana utan úr auðninni sér maður gimstein, fegurð hans og skynjar gildi hans í stærra samhengi. M.a. þetta viljum við vernda.

Lögin um náttúruvernd sem við samþykktum í þessum þingsal fyrir skömmu vitna gegn þessu máli. Svo gera líka alþjóðlegir samningar, Ramsar-sáttmálinn, Bernar-sáttmálinn, EES og Ríó-sáttmálinn svo nokkuð sé talið.

Náttúrufegurðina og náttúruauðæfi þessi get ég ekki hugsað mér að verði lögð undir vatn og virkjanir nema þeim hafi verið sýnd hin fyllsta virðing með þeim leikreglum sem viðurkenndar eru í þessu samfélagi. Við höfum sett lög um mat á umhverfisáhrifum og ég get ekki gert annað en að fara að þeim leikreglum, hvort sem ríkisstjórnin hefur forneskjulegar undanþágur til annarra gjörða eða ekki. Ég vil þó ekki að lítið sé gert úr byggðasjónarmiðum sem vissulega eru fyrir hendi og þeim hagsmunum sem ríkisvaldið hefur.

Virðulegi forseti. Ég get því miður, vegna annarra verkefna, ekki tekið hér til máls öðru sinni. Tíma mínum er hér að ljúka. Ég hefði viljað fá tækifæri til að gagnrýna þá skýrslu sem hér liggur fyrir frá Landsvirkjun. Það hafa fáir gert. Menn hafa lesið skýrsluna, verið glaðir og sagt: Hér er gott verk á ferðinni og nú er ég sannfærður, þökk sé Landsvirkjun og skýrslu hennar.

Þarna er einmitt mergurinn málsins, sá meginmunur á því mati sem við ætlum að gera hér eftir því sem við erum menn til í þessum þingsal og matinu á umhverfisáhrifum, hinu lögformlega mati. Ef þetta hefði farið í hið lögformlega mat samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum þá hefðu ýmsir vankantar skýrslunnar verið sendir aftur til Landsvirkjunar eftir að hafa fengið hlutlausa og sérfræðilega meðferð í lögbundnum stofnunum og hjá skipulagsstjóra. Landsvirkjun hefði getað lagfært þá og síðan hefði málið komið til kynningar hjá almenningi, almenningi sem ég hef margoft lýst hér að eigi alveg að útiloka frá þessu. Ég viðurkenni að það er gott framtak iðnn. að opna tölvuaðgang og þar fram eftir götunum. Andmælaréttinum er hins vegar neitað.

Ég hefði viljað rekja það að skýrslan er ágætis upphafsplagg en hún er vilhöll að mjög mörgu leyti. Hún gengur á svig við frumskýrslur frá vísindamönnum sem lögðu verk sín í hendur Landsvirkjunar. Ég vil benda á að margar af ítarlegustu rannsóknunum sem þarna hafa farið fram á dýralífi og grösum eru 20--25 ára gamlar. Rannsóknirnar á gæsunum og hreindýrunum fara fram hluta úr degi, einu sinni á sumri. Það eru stofnstærðarrannsóknir en ekki atferlisrannsóknir. Í skýrslunni kemur ekkert fram um rannsóknir á beit, hvorki hreindýra né gæsa, svo ég nefni nokkuð af þessu. Rangt er farið með tölur í prósentum um gæsastofninn, þar er munur á upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun og Landsvirkjun.

Ég gæti nefnt fleira en menn ættu að sjá muninn á þessu. Annars vegar tökum við við plaggi sem við getum í engu breytt og getum engra spurninga spurt. Við útilokum almenning frá þessu máli. Ég krefst þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að almenningur fái aðgang að málinu og það fái meðferð sem okkur er samboðinn þannig að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það þegar fram líða stundir.