Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 19:51:17 (1718)

1999-11-17 19:51:17# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JHall
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[19:51]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls láta það koma skýrt fram að ég tel að sú þáltill. sem er til umræðu sé eitt langþýðingarmesta framlag á síðari árum til að sporna við fólksflótta af landsbyggðinni, einkum þó Austurlandi. En það eru ekki bara Austfirðingar sem munu njóta góðs af þessum fyrirætlunum, þess mun þjóðin öll njóta þegar stundir líða því eins og komið hefur fram mun fyrirhuguð virkjun í Fljótsdal og orkufrekur iðnaður á Reyðarfirði færa verulegan efnahagslegan ávinning í þjóðarbúið þegar stundir líða.

Austfirðingar mega muna tímana tvenna þegar virkjunarmál eru á dagskrá. Það hafa skipst á skin og þó að sönnu oftar skúrir. Undanfarin 25 ár eða svo hefur ítrekað verið fullyrt að nú væri sú stund að renna upp að óbeisluð orka austfirskra jökulfljóta mundi gagnast þjóðinni til annars en bara augnayndis. Settar hafa verið á laggirnar alls konar nefndir og ráð, staðarvalsnefnd, undirbúningsnefnd, samráðsnefnd, samninganefndir að ógleymdum öllum sérfræðinganefndunum.

Minnisstætt er einnig þegar einn fyrrv. hæstv. iðnrh. í þann tíð, virkjunarsinni og velviljaður orkufrekum iðnaði, fékk fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík til að gera tillögur um skipulag á Reyðarfirði samhliða byggingu iðjuversins. Svo sannfærðir voru menn þá um framgang málsins að stofnfundur undirbúningsfélags var haldinn með pompi og prakt austur þar og vegur lagður að verksmiðjustæði. Vonbrigðin voru því mikil og skiljanleg þegar ekkert varð úr góðum áformum og glæstum vonum. Bjartsýni og framtak sem einkennt hafði síðari hluta áttunda áratugarins breyttist smám saman í vonleysi og vantrú og því fór sem fór. Á þetta raunar víðar við en um Austurland. Er nú svo komið málum samkvæmt opinberum tölum að á degi hverjum yfirgefur að meðaltali einn Austfirðingur landshlutann og flytja væntanlega langflestir hingað suður í sælunnar reit. Hugsið ykkur hvílíka blóðtöku. Tæpar tvær vísitölufjölskyldur í viku hverri hafa undanfarin missiri yfirgefið heimahagana, fjölmargir nauðugir vegna þess að betur er boðið og borgað á höfuðborgarsvæðinu en í heimabyggðinni.

Nú er lag til viðspyrnu. Fólk hefur að nýju öðlast trú á framtíð landshlutans. Mikill meiri hluti íbúa Austurlands eygir sem betur fer á nýjan leik möguleika á að byggðinni verði bjargað þó að á elleftu stundu sé. En því miður eru til öfl í þessu þjóðfélagi sem vilja ekki sjá hlutina gerast með þessum hætti heldur einhvern veginn öðruvísi eins og það er oft orðað og vísar þá einstaka til eflingar ferðaþjónustu en ég kem að því síðar. Þrátt fyrir að kostað hafi verið meiri fjármunum og mannafla til vönduðustu rannsókna á Fljótsdalsheiði og nágrenni en sögur fara af vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda er vísindalegum niðurstöðum vikið til hliðar og þar með áliti virtra stofnana og fræðimanna og er hér vitaskuld átt við ágæta skýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar.

Á hinu háa Alþingi virðist svo sem fylkingar með og móti áformuðum framkvæmdum skiptist í stjórn og stjórnarandstöðu með stöku undantekningum þó. Út af fyrir sig segir þessi skipting allt sem segja þarf en þetta er þeim mun sérkennilegra þegar þess er gætt að kannanir sýna að fylgjendur stjórnarandstöðu virðast að meiri hluta styðja fyrirætlanir stjórnvalda. En fleira sýnist, merkilegt nokk, sameiginlegt þessum andstæðingum framtíðar Austurlands og ég segi andstæðingum framtíðar Austurlands. Sannast hér enn hið fornkveðna að fjórðungi bregður til fósturs. Það virðist nefnilega svo að innbyrðis deilur, illvíg átök og flokkadrættir sem gjarnan hafa einkennt þessa flokka gleymast og stríðsöxin óðar grafin þegar Fljótsdalsvirkjun ber á góma. Þá fyrst fallast fornir fjendur í faðma og lausnarorðið er: Umhverfismat, lögformlegt umhverfismat.

En til eru þeir sem telja sig vita betur og að ekki sé verið að kalla eftir lögformlegu umhverfismati af umhyggju fyrir landinu, gögnum þess og gæðum. Hér liggur fiskur undir steini því að auðvitað vonast þeir sem kjósa að kalla sig umhverfisverndarsinna, og þetta er ekki sagt í neikvæðri merkingu af minni hálfu, að með þessu móti takist að fresta framgangi þessa framfaramáls. Ótímabær frestun virkjunar mundi án efa leiða til þess að samningur við orkukaupanda yrði í uppnámi sem aftur mundi eyðileggja möguleika á orkufrekum iðnaði á Reyðarfirði. Þetta vita menn gjörla, þessi er aðferðafræðin. Það gladdi mig mikið, virðulegur forseti, þegar mér bárust fregnir af því fjarri vettvangi að stofnfundur til styrktar Fljótsdalsvirkjun og orkufrekum iðnaði á Austurlandi, Afl fyrir Austurland, sem auglýstur var með 30 klukkustunda fyrirvara, hafi skilað um 700 manns til fundar á Egilsstöðum í lok ágústmánaðar sl.

En það er fleira sem huga þarf að þegar þessi mál eru rædd. Hvað með öryggisþáttinn? Það er eins og menn hafi gersamlega gleymt því að yfirgnæfandi meiri hluti í orkuöflun í landinu fer fram á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu þar sem náttúruhamfarir geta hvenær sem er valdið stórskaða bæði í bráð og lengd. Væri ekki nærtækara að komast niður á jörðina og taka að nýju tillit til þess að flestallar virkjanir eru byggðar á eldvirkum svæðum þar sem jafnframt er hætta á hörðum jarðskjálftum með tilheyrandi áhættu? Þetta virðist að mestu gleymt í allri þeirri taugaveiklun og æsingi sem hefur einkennt umræðuna undanfarið. Í þessu sambandi minni ég á að þegar slagurinn stóð á milli Blönduvirkjunar og Fljótsdals á sínum tíma, var þessi þáttur málsins, öryggisþátturinn, mjög til umræðu og talinn ein meginröksemd staðsetningar Blönduvirkjunar á sínum tíma.

Virðulegur forseti. Umferð fólks um virkjunarsvæði Fljótsdalsvirkjunar hefur aldrei verið meiri en í sumar og er eflaust aðalástæðan umfjöllun um Eyjabakkalón og aðrar framkvæmdir tilheyrandi. Fullyrða má að umferð hafi ekki verið meiri um þetta svæði frá því að land byggðist og segir það nokkuð um umfjöllun málsins úti í þjóðfélaginu.

En af hverju komust allar þessar þúsundir manna inn á Eyjabakka í sumar? Skýringin er einföld. Vegir hafa verið lagðir um svæðið. Og hverjir hafa framkvæmt þetta? Virkjunaraðilarnir, þessir voðalegu menn að mati virkjunarandstæðinga, Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun og hafi þeir heila þökk fyrir. Það væri nefnilega miklum erfiðleikum háð fyrir venjulega ferðamenn að komast að þeirri náttúruparadís sem öræfin norðan og austan Vatnajökuls geyma ef ekki hefðu verið uppi áætlanir um virkjunaráform á svæðinu. Ég er þess sannfærður að ef þessir vegir hefðu ekki verið lagðir á sínum tíma, væri ásýnd landsins allt önnur og verri en nú getur að líta vegna utanvegaaksturs og umhverfisspjalla.

Það er sannarlega trú mín að þegar stundir líða muni allir hagnast á þessari framkvæmd og náttúrusjónarmiða verði gætt svo sem frekast er unnt. Öllum framkvæmdum fylgir óhjákvæmilega nokkurt rask og það ber að lágmarka svo sem hinn nýja virkjunartilhögun býður. Á hitt ber að líta og er ómótmælanlegt að byggðasjónarmið krefjast skjótra aðgerða. Hagkvæmasti og fljótvirkasti möguleikinn í stöðunni felst í því verkefni sem hér er fjallað um. Hér er um þvílíka byggðahagsmuni að tefla að ekki verður aftur snúið nema þá til forneskju, til fortíðar, óbreytts ástands eða jafnvel verra og hver vill það?

Virðulegur forseti. Þegar andstæðingar þessara framkvæmda eru spurðir um hver önnur úrræði þeir sjái, nefna margir eflingu ferðaþjónustu á svæðinu. Þessu er ég hjartanlega sammála enda þess fullviss að hagsmunir ferðaþjónustunnar og fyrirhugaðra framkvæmda geti vel farið saman. Mér er það mál einnig skylt og tel mig þekkja þar nokkuð vel til eftir 25 ára afskipti og störf.

Ég gæti líka rökstutt á hvern hátt ég sé ferðaþjónustu eflast á Austurlandi samhliða virkjun í Fljótsdal og orkufrekum iðnaði á Reyðarfirði. Það ætla ég hins vegar ekki að gera að sinni heldur vísa til bókarinnar um Hrafn heitinn Sveinbjarnarson á Hallormsstað, sem var þekktur maður á sinni tíð og mikill náttúruunnandi og fjallamaður eins og það hét í mínu ungdæmi. Þar getur að líta örstuttan kafla um Eyjabakkana eins og hann sá þá fyrir sér til framtíðar eftir virkjun, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ofan við hina fyrirhuguðu stíflu verður stöðuvatn álíka og Þingvallavatn að flatarmáli og skal ná inn að Eyjabakkajökli. Þetta verður nokkuð djúpt vatn, og ég hef verið eins og karlinn með ráðagerðirnar í þjóðsögunni að byggja skýjaborgir um atvinnuveg þarna inn frá að mannvirkinu loknu, þ.e. ferðamannaþjónustu á heimsmælikvarða.

Gistihús með sundlaug verður reist við Hafursfell þar sem heitar lindir streyma úr jörð og upphleyptur vegur þangað á ruðningum meðfram aðveituskurðinum.`` --- Að vísu er þessi virkjunartilhögun breytt. Það verða engir aðveituskurðir, guði sé lof. --- ,,Þá verður ferjuskip á Eyjabakkalóni og siglir inn að jökli að sumarlagi en á vetrum verður farið á ís sömu leið. Ferjan leggst að jöklinum og þar verður snjóbíla- og snjósleðaleigustöð og skipulegar ferðir um Vatnajökul --- til Kverkfjalla, vestur í Vonarskarð og Nýjadal, suður á Öræfajöklul og til Grímsvatna svo ég nefni nokkra staði. Þetta verður sólbaðsland í heiðríkju á sumrin þar sem gestir fá brúnan lit á skrokkinn á skemmri tíma en á sólarströndum, skíðaland árið um kring og upp á Snæfell verður strengd loftbraut svo allir sem vilja, skíðamenn jafnt sem gamalmenni, geti svipast um á kolli fjallsins.

Að sjálfsögðu verður lagður fyrsta flokks vegur vestur í Hrafnkelsdal og opnaður hringvegur til Jökuldals og um heiðar og víðáttur norðan Vatnajökuls.

Skemmtiferðaskip flytja farþega til Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar, en flugvélar til Egilsstaða. Fjöldi fólks fær atvinnu við þennan túrisma.`` (Gripið fram í: Hver skrifar þetta?)

Hér talaði framsýnn maður og djarfhuga, Hrafn á Hallormsstað, fjallamaður. Þessi orð voru rituð á árinu 1986. Þau vil ég gjarnan gera að mínum.

Virðulegi forseti. Það er komið að ögurstund í þessu máli. Hér er um pólitíska ákvörðun að ræða og þýðir einfaldlega ekki að skjóta sér undan ábyrgð með því að vísa til lögformlegs umhverfismats. Það verður að skera á þennan hnút að lokinni umfjöllun hins háa Alþingis nú og vonandi með samþykki þeirrar tillögu sem hér liggur frammi.