Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 17. nóvember 1999, kl. 21:51:52 (1730)

1999-11-17 21:51:52# 125. lþ. 27.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 125. lþ.

[21:51]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Enn bætir í hjá þingflokki vinstri grænna. Nú segir hv. þm.: Við viljum virkja. Því spyr ég: Hvar skal virkja? Má virkja í Bjarnarflagi? Hv. þm. spyr hins vegar: Hvernig á að nýta? Fróðlegt væri að heyra einhver svör við því.

Merkast í ræðu hv. þm. var þó fullyrðing um að þetta væri ekki landsbyggðarmál heldur landsmál. Því er spurt: Hvaða mál eru landsbyggðarmál en ekki landsmál? Hvar eru skilin þar á milli?

Vegna þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat ekki skýrt fyrir mér þær breytingar sem hafa orðið á afstöðu hans varðandi ýmislegt sem hann sagði árið 1990 vil ég gera eina tilraun enn til að fá skýringu. Ég treysti því að hv. þm. sem hér talaði síðast geti gefið mér skýringu eða a.m.k. sagt hvort hann er sammála eða ósammála því sem haft er eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þar sem hv. þm. fjallar um afstöðu sína til álvers árið 1990:

,,Ég hef fyrst og fremst rekið það á almennum byggðapólitískum forsendum, sem sagt þeim að ef svona fyrirtæki eigi að rísa þá eigi það að gerast utan suðvesturhornsins því annað muni það sannarlega, bæði beint og vegna óbeinna áhrifa, valda enn óhagstæðari hlutföllum milli landsbyggðar og þéttbýlisins við Faxaflóa.``

Er hv. þm. sammála þessu eða hafa slíkar breytingar orðið á að þessi viðhorf eigi ekki lengur við?