Íslenskar þjóðargersemar erlendis

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:01:19 (1756)

1999-11-18 10:01:19# 125. lþ. 28.1 fundur 140. mál: #A íslenskar þjóðargersemar erlendis# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:01]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar til hæstv. menntmrh. er nauðsyn þess að kannað verði hvað sé til af íslenskum munum, íslenskum fornum gersemum sem hafa verið fluttar úr landi til hinna ýmsu staða, bæði til hins stóra Danaveldis og einnig til annarra landa, þ.e. hvernig sé ástatt með þá.

Við vitum af allmörgum munum. Við vitum af hinum fallega Grundarstóli. Við vitum af fallegum bókaspjöldum gömlum og fínum altarisklæðum. En ég spyr hvað formlega sé vitað um þetta.

Ég minni á að við vorum hluti af Danaveldi og þá voru allmargir munir fluttir bæði til Danmerkur og Svíþjóðar og annarra hluta Danaveldis í nafni samveldis okkar þá. Ekki hefur verið gert neitt formlegt í að innheimta þessa muni annað en það sem gert var fyrir 1930 við Alþingishátíðina þá, eða við þau tímamót. Nú hafa bæði Færeyingar og Grænlendingar leitað eftir samningum og náð samningum við Dani um að kanna hvaða munir eru frá þeirra löndum í Danaveldi og hugsanleg skil á þeim. Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh.:

1. Hvað er vitað um skráningu íslenskra þjóðargersema á erlendri grundu, svo sem kirkjugripa, forngripa og annarra dýrgripa sem hafa sögulegt og þjóðmenningarlegt gildi fyrir Íslendinga, og hvernig er háttað vörslu þeirra og aðbúnaði?

2. Hefur menntamálaráðuneytið eða ríkisstjórnin uppi hugmyndir eða áætlanir um að leita eftir samningum við viðkomandi erlend stjórnvöld, stofnanir eða einstaklinga sem miða að því að endurheimta umrædda dýrgripi?