Jöfnun námskostnaðar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:42:12 (1770)

1999-11-18 10:42:12# 125. lþ. 28.4 fundur 182. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Framlög til jöfnunar á námskostnaði hafa aukist verulega á undanförnum árum eða úr 111,5 millj. kr. árið 1996 í 267,5 millj. kr. samkvæmt frv. til fjárlaga árið 2000. Þarna er um 140% hækkun að ræða.

Árlegar hækkanir hafa átt sér stað með samstilltu átaki ríkisstjórnar og Alþingis. Jafnframt hafa ákvæði laga verið rýmkuð og því hefur þeim fjölgað sem styrksins njóta. Þá hefur einnig verið staðfest ný reglugerð sem tryggja á skilvirkari úthlutun.

Undanfarin ár hefur stöðug viðleitni verið í þá átt að jafna námskostnað með hliðsjón af búsetu. Í þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árið 1998--2001 sem samþykkt var 3. mars 1999 er staðfestur sá vilji Alþingis að bæta skilyrði þeirra sem sækja verða nám utan heimabyggðar sinnar. Raunar er þar ekki tiltekin sérstök upphæð eða nefnd nánari tímamörk í ályktun Alþingis. Fjárhæðin, 230 millj. kr. og þau tímamörk sem nefnd eru í fyrirspurn hv. þm. eru sótt í skýrslu og tillögu nefndar sem forsrh. skipaði samkvæmt tilnefningu allra þingflokka til þess að fjalla um byggðamál í tengslum við breytingu á kjördæmaskipan og setja fram tillögur um starfsaðstöðu þingmanna í breyttum og stærri kjördæmum. Sú skýrsla og þær tillögur verða hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi aðgerðir í byggðamálum eins og fram hefur komið. Upphæðin sem veitt verður til þessa fjárlagaliðar hlýtur að taka mið af ýmsum þáttum, námsframboði skólanna á landsbyggðinni, notkun fjarkennslu og búsetuþróun almennt.

Í ljósi þess sem fram hefur komið þarf ekki að draga í efa vilja minn til að nota á næstu árum bæði bein framlög og aðrar aðgerðir til að jafna aðstöðu námsmanna án tillits til búsetu. Hins vegar er það svo að þegar menn skoða meðferð fjárlagafrv. á Alþingi hefur það verið samkomulag á milli ríkisstjórnar, menntmrn. og fjárln. hvernig staðið hefur verið að fjárveitingum til þessa liðar á fjárlögum ár hvert. Ráðuneytið hefur hins vegar beitt sér fyrir því að rýmka ákvæði laga um nýtingu á fjármagninu og einnig höfum við sett nýja reglugerð.

Það var athyglisvert á þingi ungs fólks sem haldið var sl. vor að þegar menntamálanefnd þeirrar samkomu kom á minn fund og fór yfir menntamál sem þar voru til umræðu þá var mjög áberandi krafa frá nemendum um að gerð yrði gangskör að því að tryggja að þessir fjármunir nýttust eins og ætlast er til. Þar var greinilega talið um það að ræða að þeir væru misnotaðir. Þess vegna m.a. beitti ég mér fyrir endurskoðun reglugerðarinnar. Hún hefur nú verið endurskoðuð og birt í Stjórnartíðindum. Þar er vonandi skotið loku fyrir það að menn geti misnotað þessa fjármuni eins og nemendurnir vöktu máls á og ræddu um við mig á þeim fundi. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því fyrr en þá en þeir töldu að þarna væri ekki allt sem skyldi. Menn verða að líta til þegar opinberu fé er varið á þennan hátt að það nýtist þeim sem á því þurfa að halda og eiga rétt til þess samkvæmt vilja okkar sem hér erum.

Ég tel sem sagt að hér sé hreyft athyglisverðu máli sem við höfum haft mjög í huga. Niðurstaðan ræðst af samkomulagi við lokaafgreiðslu fjárlaga eins og jafnan hefur verið á milli Alþingis og ríkisstjórnar í þessum málum.

Einnig vil ég árétta það sem fyrr var rætt að mikilvægi fjarkennslu er að aukast. Með henni er unnt að veita mun betri þjónustu í menntamálum um landið allt en áður. Við verðum líka að huga að þeim þætti þegar við ræðum um jöfnun á aðstöðumun, hvort sem menn búa í þéttbýli eða dreifbýli eða þá í sveitum landsins. Sú tækni gerir okkur kleift að ná til mun fleiri nemenda en nokkru sinni fyrr sem er mjög brýnt og mikilvægt.