Rjúpnaveiði

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:26:57 (1817)

1999-11-18 12:26:57# 125. lþ. 28.13 fundur 116. mál: #A rjúpnaveiði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:26]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin og hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir athugasemdir og ábendingar. Við virðumst öll deila áhyggjum af því að veiðimannastofninn sé að vaxa mjög þannig að þau takmörkuðu gæði sem hæstv. ráðherra nefndi séu að verða mjög takmörkuð vegna veiðiálags eða ég lít svo á.

Hins vegar má einnig velta því fyrir sér hvort ástæða hafi verið til að banna veiðarnar vegna ofveiði í nágrenni höfuðborgarinnar og stefna öllum veiðimönnum inn á veiðisvæði sem eru minna könnuð þannig að ekki sé auðvelt að fylgjast með því hvort um ofveiði er þar að ræða á þeim þremur árum sem veiðarnar eru bannaðar á suðvesturhorninu.

Að öðru leyti þakka ég hjartanlega fyrir svörin. Ég hygg að þessi breyting, af því þetta voru ekki svo stór svæði þar sem veiðar voru bannaðar, hafi meira verið huglæg að allir stefndu út á land til þess að veiða, svona eins og þegar rokið er af stað á útihátíðir vissar helgar yfir sumarið.

Hv. þm. Kristjáni Pálssyni þakka ég einnig fyrir athugasemdir og ég þakka nú guði fyrir að hann var ekki berhöfðaður á fjöllum við upphaf veiðitímabilsins.

Varðandi blýið þá veit ég ekki hvernig það er en ég vona að hæstv. ráðherra svari því hversu mikið magnið er og hversu alvarleg sú mengun kann að vera.