Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:15:51 (1906)

1999-11-18 16:15:51# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem þingmaðurinn sagði er nákvæmlega það sama og ég hef sagt sjálf. Á þeim fundi sem hann vísar til í iðnn. kom fram að verið væri að búa til heimasíður fyrir allar nefndir þingsins. Það vissi ég. Ég fór af þeim fundi nærri því beint á þingflokksfund og tilkynnti mínum þingmönnum það. Sumir vissu það um sína nefnd þá þegar. Ég staðfesti að mér finnst þetta jákvæð vinnubrögð. Þannig á það að vera, að Alþingi sé með eins öflugt og tæknivætt umhverfi og unnt er.

Ég legg hins vegar áherslu á að þegar opnaðar eru heimasíður fyrir allar nefndir þingsins þá eigi að sjálfsögðu annaðhvort forsn. eða formenn nefndanna að kynna það. En hvernig var það gert?

Í umræðunni hér, í þessu viðkvæma deilumáli er farið af stað af hálfu iðnn. til að gefa þá mynd að iðnn. geti nú tekið við því hlutverki sem stjórnarmeirihlutinn er að færa iðnn., að gera það viðkvæma mat sem lögin um umhverfismat fela allt öðrum aðilum. Þetta höfum við gagnrýnt allan tímann. Þetta gagnrýni ég enn og læt ekki af þeirri gagnrýni minni. Þetta atferli iðnn. í dag er liður í því sem ég hef lýst. Það er óviðeigandi og ég er því ósammála.